Lögreglan í Úkraínu hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa myrt Andríj Parúbíj, fyrrum forseta úkraínska þingsins Verkhovna Rada, í gær. Volodymyr Zelenskyj forseti Úkraínu sagði Íhor Klymenko innanríkisráðherra og Vasyl Maljúk formann öryggisþjónustunnar hafa greint sér frá handtökunni. Parúbíj var skotinn til bana í borginni Lvív í gær. Árásarmaðurinn, sem var dulbúinn sem sendill, komst undan á rafhjóli. „Nauðsynleg rannsóknarvinna stendur yfir,“ skrifaði Zelenskyj á samfélagsmiðlum. „Ég þakka lögreglumönnunum okkar fyrir skilvirka og samhæfða vinnu þeirra.“ Eftir að hafa rætt við Rúslan Kravtsjenko aðalsaksóknara birti Zelenskyj aðra færslu þar sem hann staðfesti að búið væri að taka skýrslu af hinum grunaða. Íhor Klymenko birti færslu á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem hann greindi frá því að tugir lögregluþjóna og öryggisstarfsmanna hefðu tekið þátt í aðgerð til að handtaka hann. Klymenko sagði hinn grunaða hafa verið handtekinn í fylkinu Khmelnytskyj í vesturhluta Úkraínu. „Ég segi bara að glæpurinn var vandlega undirbúinn: Búið var að fara yfir ferðaáætlanir hins látna, leiðin þangað var skipulögð og búið var að undirbúa flóttaleið,“ sagði Klymenko. Hann sagði að nákvæmra upplýsinga um málið væri ekki að vænta að svo stöddu.