Prabowo Subianto forseti Indónesíu hefur lofað landsmönnum því að ýmis fríðindi indónesískra þingmanna, meðal annars umdeildur húsnæðisstyrkur að andvirði um 370.000 kr., verði afturkölluð. Prabowo tilkynnti jafnframt að utanlandsferðir þingmanna skyldu stöðvaðar. Fríðindin voru ein kveikjan að fjöldamótmælum sem standa yfir í Indónesíu og hafa leitt til sex dauðsfalla. Reiði mótmælenda jókst mjög eftir að öryggislögregla ók yfir vélhjólasendil að nafni Affan Kurniawan á fimmtudaginn. Indónesísk stjórnvöld hafa hert öryggisgæslu í höfuðborginni Djakarta og víðar um landið vegna mótmælanna, meðal annars með því að setja upp vegatálma og koma fyrir leyniskyttum á mikilvægum stöðum. Einnig hefur verið lokað fyrir aðgang að samfélagsmiðlinum TikTok í nokkra daga vegna ástandsins. Sjafrie Sjamsoeddin varnarmálaráðherra varaði við því í gær að öryggissveitir stjórnarinnar myndu taka á „óeirðarseggjum og ruplurum“ af hörku. Prabowo hætti við fyrirhugaða heimsókn sína til Kína í vikunni vegna mótmælanna en hann hafði áætlað að vera viðstaddur herskrúðgöngu til að minnast loka seinni heimsstyrjaldarinnar. Þrír fórust í eldi á föstudaginn þegar mótmælendur kveiktu í byggingu í borginni Makassar. Æstur múgur barði annan mann til ólífis í Makassar sama dag vegna gruns um að hann væri meðlimur í leyniþjónustunni. Þá lést háskólanemi í mótmælum í Yogyakarta en ekki hefur verið upplýst um dánarorsök hans.