„Það sem ég elska við grín er þegar einhver getur sýnt mér að það sem pirrar mig mest í lífinu er í rauninni bara ógeðslega fyndið,“ segir leikkonan Birna Rún Eiríksdóttir sem fer nú af stað með uppistandssýninguna Bremsulaus í Tjarnarbíói. Landsmenn þekkja hana eflaust best úr Jarðarförinni minni, Brúðkaupinu mínu og Arfinum mínum. Þar er hún í hlutverki tengdadóttur Benedikts sem Þórhallur Sigurðsson, Laddi, leikur. „Það var mjög gaman. Ég lék áhrifavald í fyrstu seríunni og gerði mikið grín að áhrifavöldum. Svo bara þegar við förum að taka upp næstu seríu þá er fólk byrjað að label-a mig sem áhrifavald. Þannig að ég fékk þetta smá í bakið, var búin að gera rosalega mikið grín að þessari stétt,“ segir Birna Rún í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Eftir það skrifaði hún og leikstýrði þáttaröðinni Flamingó bar sem sýnd var á Stöð 2. „Þetta er bara ég og ég“ Undanfarið eitt og hálft ár hefur Birna Rún prófað sig áfram með uppistand en viðurkennir að það sé ekki alltaf dans á rósum. „Það er vissulega ógeðslega skemmtilegt. Á sýningunni sjálfri verður ógeðslega gaman held ég, ég er bara viss um það.“ „En maður er að setja sig algjörlega hráan þarna út. Ég hef ekkert til að verja mig; er ekki með mótleikara eða leikstjóra sem deilir ábyrgð. Þetta er bara ég og ég. Ég fæ viðbrögðin beint í æð út sýninguna og ber ábyrgð á þeim.“ Hún segist aldrei finna fyrir jafn mikilli pressu, að vilja standa sig, og þegar hún stendur ein á sviði að reyna skemmta fólki. „Ef það er sturluð stemning þá er ég ekkert að fara af sviðinu“ Birna Rún segir orðið „bremsulaus“ lýsa sér þegar hún fari á svið. Uppistandið hingað til hafi gengið mun betur en hún átti von á. „Ég hélt að maður þyrfti lengri tíma en þetta er bara búið að ganga ógeðslega vel og staðan var bara orðin þannig að ég var farin að taka alltaf svo mikið pláss þegar við vorum kannski fjórar, fimm saman að sýna.“ Hún segist nefnilega missa allt tímaskyn þegar hún byrji að tala, eitthvað sem geti bæði verið kostur og galli. „En ég verð svona bara ef það er gaman. Annars klárar maður bara settið og fer, ef það er svona temmilega gaman. En ef það er bara sturluð stemning, þá er ég ekkert að fara af sviðinu bara af því að ég átti að vera í korter. Ég var farin að enda í hálftíma.“ Þær sem voru með henni spurðu hana þá hvort hún vildi ekki bara vera með sína eigin sýningu svo hún fengi sitt pláss. Ekki alltaf jafn fljót að sjá sjálfa sig fyrir sér í hlutverkum hins kynsins Hún hafi því farið að skoða þann valkost fyrir einhverju síðan en svo þegar Tjarnarbíó bauð henni að koma og vera með sýningu ákvað hún að taka stökkið og finna kjarkinn í sér. Það séu nefnilega ekki margar fyrirmyndir af konum sem halda einkauppistandssýningar. „En við eigum samt alveg frábæra grínista.“ Sýningin Allt eðlilegt hér með Sögu Garðarsdóttur og Snjólaugu Lúðvíksdóttur hafi til að mynda veitt henni mikinn innblástur til að fara út í uppistand. „Þetta var ótrúlega skemmtileg sýning og þá hugsaði ég: Jú, ég gæti nú alveg gert þetta.“ „Því stundum, án þess að það séu einhver rök fyrir því, þá er maður ekki jafn fljótur að sjá sig fyrir sér í hlutverkum sem þú sérð hitt kynið í. Þetta var líka svona með leikstjórastólinn fannst mér. Það er ekki það að eitthvað sé að stoppa mig bókstaflega, heldur vantar mann stundum bara þetta sem drífur mann í að raunverulega gera það sem mann langar að gera.“ Stundum vanti fyrirmyndir, að geta samsamað sig einhverjum, til að sýna að þetta sé hægt. „Þegar ég sá þær þá vissi ég að mig langaði að gera þetta. Ég var svolítið lengi að viðurkenna það samt upphátt því ég var skíthrædd við það.“ Hún hafi þá haft samband við Snjólaugu og beðið hana um hjálp. „Hún tók fyrstu skrefin með mér. Ég fékk að hita upp fyrir prufusýningu hennar og það var í fyrsta skipti sem ég fór á svið. Hún hélt í höndina á mér í gegnum mín fyrstu uppistönd.“ „Það er bara búið að vera ógeðslega gaman. En ég þarf að fara ógeðslega oft til sálfræðings upp á móti, ég get alveg viðurkennt það,“ bætir hún við og hlær. Gerir mest grín að sínum nánustu Birna Rún segist ekki sækja efniviðinn langt og telur það ekki nauðsynlegt til að vera frumlegur. „Það sem mér finnst fyndnast er oftast það sem við erum að díla við í hversdeginum og er nálægt okkur.“ Hún elski þegar grín sýni henni hvað lífið sé í raun og veru fyndið, jafnvel þó svo eitthvað fari í taugarnar á henni. „Það þarf ekki að vera svona þungt.“ „Ég er rosa mikið að ná í efni í mína nánustu. Ég er að gera grín að langtímasamböndum því ég er búin að vera í sambandi í fjórtán ár og eignaðist barn þegar ég var 19 ára. Ég á mömmu sem er hin týpíska mamma af kynslóðinni sem er fyrir ofan okkur og ég á ömmu sem er mikið hægt að gera grín að.“ „Fyrsta grínið sem ég gerði var rosalega mikið af manninum mínum af því að það var bara það sem ég þurfti að koma út úr systeminu mínu.“ Hún segist þó líka pota í hina ýmsu þætti sem samfélagið takist á við. Hún fjalli því ekki aðeins um fólkið sitt. Hún segir eiginmann sinn hafa mikinn húmor fyrir þessu. „Ég geng svolítið langt með hann, get orðið bremsulaus á því sviði en hann er vanur því og hefur mikinn húmor. Hann elskar mig eins og ég er og ég fæ borgað fyrir þetta.“ Móðir hennar er búin að taka grínið í sátt en átti dálítið erfitt með það í byrjun. Hún þurfi að setja sig í stellingar fyrir frumsýninguna 20. september. Ekki bara fyrir konur Þegar konur stíga á svið með uppistand séu margir sem telja það aðeins fyrir konur en þegar karlmenn eru með uppistand þá er algengara að fólki finnist það vera fyrir alla. „En þetta er fyrir alla, mér finnst alveg að það megi minnast á það.“ „Ég skil það alveg fullkomlega að hugsa: Þetta er þrítug stelpa, hún hlýtur að fara vera með píkugrín. Ég skil. En það sem hefur komið mér mest á óvart er hve mikið af karlmönnum eru að koma til mín og segja að ég hafi verið að lýsa þeim í þessu uppistandi. Þeir bæði skammast sín og hafa mikinn húmor.“ Það var ekki fyrr en Birna Rún leikkona fann fyrirmyndir sem hún gat samsamað sig með að hún þorði að viðurkenna að hana langaði að taka skrefið út í uppistand. Nú fer hún af stað með sína fyrstu einkasýningu og gerir stólpagrín að sínum nánustu. Rætt var við Birnu Rún Eiríksdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Bremsulaus verður frumsýnd í Tjarnarbíói 20. september.