Að minnsta kosti 622 manns létu lífið í jarðskjálfta að stærðinni 6,0 sem varð stuttu fyrir miðnætti í Afganistan í nótt. Þá eru rúmlega 1.500 manns slösuð. Skjálftinn varð um 27 km austnorðaustan við borgina Jalalabad í Nangarhar-héraði á 10 km dýpi, að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar. Abdul Mateen Qani, talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins, greindi fréttastofu AFP frá því að 1.300 manns hefðu slasast í Kunar-héraði og að fjöldi húsa hefði gereyðilagst. 610 manns fórust í Kunar-héraði og 12 í Nangarhar-héraði. „Í samræmi við þetta hafa öll öryggis-, þjónustu-, heilbrigðis-, samgöngu- og matvælateymi flýtt aðgerðum sínum til að tryggja borgurunum sem verða fyrir áhrifum yfirgripsmikla og fullnægjandi aðstoð,“ sagði Abdul Mateen. Fréttastofa BBC hafði eftir heimildarmönnum innan ríkisstjórnar Talíbana að mörg þorp væru rústir einar eftir skjálftann. Rauði hálfmálinn í Afganistan segir læknateymi sín veita neyðaraðstoð í landshlutunum þar sem skjálftinn varð.