Það væri mjög hættulegt fyrir efnahag heimsins ef Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, nær stjórn peningamála á sitt vald. Þetta sagði Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans, í dag. Trump hefur gagnrýnt Jerome Powell, bandaríska seðlabankastjórann, harðlega undanfarið fyrir að lækka ekki vexti. Trump hefur einnig reynt að víkja einum af æðstu yfirmönnum seðlabankans úr embætti. Það gæfi honum færi á að skipa fulltrúa sér þóknanlegan í stjórn bankans. „Ef hann nær sínu í gegn verður það mjög hættulegt fyrir bandarískan efnahag og fyrir efnahag heimsins,“ sagði Lagarde. Hún lýsti einnig áhyggjum af pólitískum óstöðugleika í Frakklandi. Francois Bayrou forsætisráðherra hefur boðað til atkvæðagreiðslu í þinginu eftir viku um hvort ríkisstjórnin njóti trausts þingsins eða ekki. Það gerði hann vegna vandræða við að koma í gegn fjárlagaaðgerðum til að draga úr opinberum skuldum. Lagarde sagði að það ylli áhyggjum ef ríkisstjórn á evrusvæðinu hrökklaðist frá völdum þar sem það gæti haft áhrif á efnahagsstöðugleika.