Ekkert er tekið á rót vandans þegar kemur að undirmönnun á geislameðferðardeild Landspítalans í tillögum spretthóps heilbrigðisráðherra, segir stjórn Félags geislafræðinga. Ráðherra skipaði spretthópinn til að skila tillögum að úrbótum vegna þess að bið eftir geislameðferð við krabbameini hefur tvöfaldast. Aðeins tíu af fimmtán stöðugildum á geislameðferðardeild Landspítalans eru mönnuð. Félag geislafræðinga segir að ekkert sé tekið á orsökum þessa. Geislafræðingum hafi fækkað á deildinni ekki síst vegna þess að þeim bjóðist betri kjör í einkageiranum og í vaktavinnu annars staðar. „Það eru því vonbrigði að í tillögum spretthópsins eru ekki lagðar fram tillögur að því hvernig megi bæta kjör og vinnuaðstæður á geislameðferðardeild heldur aðeins sagt að þetta verði að skoða. Ætla hefði mátt að það væri hlutverk spretthópsins að skoða þetta og móta tillögur.“ Geislafræðingar undrast að lagt sé til að opnunartími deildarinnar verði lengdur til sjö í nokkra mánuði og að þar verði treyst á vinnuframlag núverandi starfsfólks og þeirra sem hafa nýlega sagt upp á deildinni. „Það skýtur skökku við að ætla núverandi starfsfólki að vinna enn meira þegar deildin er þegar undirmönnuð á venjulegum opnunartíma hennar.“ Geislafræðingar segja til lítils að leggja til kaup á öðrum línuhraðli til að nota á geisladeildinni meðan ekki fæst starfsfólk til að vinna við hann. Þá hafi verið rætt opinberlega um að senda sjúklinga úr landi til meðferðar. Þetta gerist á sama tíma og spáð sé 57 prósenta fjölgun krabbameina á næstu árum. „Það er því ljóst að skammtímalausnir duga ekki til.“