Kaupin á Isak verða ekki aðeins þau dýrustu í sögu Liverpool heldur þau dýrustu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. BBC segir Liverpool borga 125 milljónir punda fyrir Isak og gæti sú upphæð hækkað í 130 milljónir með árangurstengdum gjöldum. Það er á milli 21 og 22 milljarðar króna. Sumarglugginn hefur verið Liverpool ansi drjúgur. Liðið keypti þá Florian Wirtz, Hugo Ekitike, Milos Kerkez, Jeremie Frimpong, Giorgi Mamardashvili, Armin Pecsi og Giovanni Leoni. Að Isak meðtöldum hefur Liverpool fjárfest fyrir 416 milljónir punda. Á móti því hefur liðið selt leikmenn fyrir 190 milljónir. Isak þvingaði fram sölu Ekki hafa allir verið sáttir við framgöngu Isak í sumar. Hann gekk til liðs við Newcastle fyrir tveimur árum og gerði þá fimm ára samning. Með Newcastle varð hann bikarmeistari á síðustu leiktíð. Hann vildi færa sig um set í sumar en á þrjú ár eftir af samningnum við Newcastle. Hann sagði loforð hafa verið gefin og svikin og að samband hans við félagið væri skaddað og samstarfið gæti ekki haldið áfram. BBC segir heimildir sínar herma að Isak hafi talið sig mega fara frá Newcastle en rétt lið byði rétta upphæð. Ekki var þetta þó ritað í samninginn. Newcastle svaraði og sagði engin slík loforð hafa verið gefin. Isak neitaði að æfa og spila með Newcastle í sumar til að freista þess að þvinga fram söluna til Liverpool sem virðist nú hafa borið árangur. Newcastle virðist ætla að nota fjármunina úr sölunni á Isak til að kaupa Yoanne Wissa frá Brentford. Wissa hefur einmitt neitað að spila með Lundúnaliðinu til að þvinga fram skipti til Newcastle. Hann segir félagið hafa gefið loforð sem hann vill að sé efnt. Þriðja stærsta sala sögunnar Isak verður dýrasti leikmaður úrvalsdeildarinnar og slær þar við Enzo Fernandez sem Chelsea keypti af Benfica fyrir 107 milljónir punda fyrir tveimur árum. Með árangurstengdum greiðslum gætu kaup Liverpool á Wirtz skotist í annað sætið á eftir Isak. Isak verður jafnframt þriðji dýrasti leikmaður sögunnar í heiminum. PSG á tvö stærstu kaupin; Neymar fyrir 200 milljónir punda 2017 og Kylian Mbappe fyrir 167,5 milljónir punda ári síðar.