Óásættanleg óvirðing af hálfu ráðherra

„Það er óásættanlegt að sveitarstjórnarráðherra, sem ber ábyrgð á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sýni sveitarstjórnum þá óvirðingu að hunsa samhljóða og langvarandi kröfur um forgangsröðun framkvæmda.“ Þetta segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, vegna orða Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra í síðustu viku um að loforð í fyrri samgönguáætlunum séu fallin úr gildi. Hann sagðist á fundi á Egilsstöðum í síðustu viku vera óhræddur við að stokka upp forgangsröðun. Hann leggur fram nýja samgönguáætlun í haust. Jónína segir í aðsendri grein á Vísi að það hljóti að teljast ámælisvert að ráðherra gefi í skyn að samgönguáætlun sé fyrst og fremst pólitískt plagg sem breyta megi eftir hentugleikum „eða jafnvel nota sem verkfæri í kjördæmapoti“. Hún bendir á að Fjarðarheiðargöng hafi verið hluti af samgönguáætlun frá 2011 og segir að almenningur og sveitarfélög hljóti að mega vænta þess að aðgerðir fylgi í kjölfarið. „Það er ekki trúverðugt að hrósa Múlaþingi fyrir farsæla sameiningu og lýsa henni sem fyrirmynd annarra, en ætla síðan ekki að standa við þau loforð sem voru grundvallarforsenda sameiningarinnar og staðfest í samgönguáætlun.“