Leitað er að fólki í rústum í kappi við tímann austan við borgina Jalalabad í Afganistan þar sem öflugur jarðskjálfti reið yfir í nótt. 812 manns, hið minnsta, fórust í skjálftanum og 3.000 slösuðust. Fjöldi eftirskjálfta hefur fundist. Skjálftarnir riðu yfir fjalllendi og fjöldi bygginga hefur skemmst, að því er stjórnvöld talibana hafa tilkynnt. Erfitt er að komast að sumum þeirra þorpa sem verst urðu úti í skjálftunum, að því er fram kemur í tilkynningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þá er fjarskiptasamband stopult. Skjálftamiðjan var á átta kílómetra dýpi í Kunar-héraði. Afleiðingar skjálftans eru einnig alvarlegar í næsta héraði, Nangarhar. Þar fórust tólf og 255 slösuðust. 800 manns, hið minnsta, fórust og 2.500 slösuðust þegar jarðskjálfti sem var sex að stærð reið yfir í Afganistan í nótt. Eyðilegging er mikil og leitað er að fólki í rústum húsa í kappi við tímann. AFP-fréttaveitan hefur eftir Ijaz Ulhaq Yaad, embættismanni í Kunar-héraði, að margir íbúar þorpanna sem hvað verst urðu úti séu meðal þeirra sem hafi snúið aftur til Afganistan frá Íran og Pakistan síðustu ár. Skjálftasvæðið er við landamærin að Pakistan og þorp þar hafa verið fyrsti viðkomustaður margra sem gert hefur verið að yfirgefa Pakistan. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sent ástvinum þeirra sem fórust samúðarkveðjur. Þá hefur hann heitið áframhaldandi aðstoð Sameinuðu þjóðanna við björgunarstörf.