Vill endurskoða reglur um íshellaferðir

Sigurjón Þórðarson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir að endurskoða þurfi reglur sem gilda um afþreyingarferðir á borð við hellaskoðun. Slíkt þurfi að gera í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar. „Það þarf að ná betur utan um þetta og fleira, köfunarferðir og ýmiss konar ferðir,“ segir Sigurjón. Hann segir að eftirlit með starfsemi sé allavega. Koma þurfi í veg fyrir að málin komi til skoðunar eftir að slys koma upp. „Ef það eru ekki skýrar verklagsreglur þá verða slysin.“ Banaslys varð í Breiðamerkurjökli í Vatnajökulsþjóðgarði seint í fyrrasumar þegar íshellir féll saman. Eftir banaslysið í fyrra voru íshellaferðir bannaðar í þjóðgarðinum að sumarlagi en annars staðar eru þær leyfilegar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fréttastofa greindi frá því um helgina að ferðaþjónustufyrirtæki hefðu farið með hópa í íshellaferðir í allt sumar þrátt fyrir að slíkar hellaskoðanir séu metnar hættulegar í áhættumati. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sagði í fréttum á sunnudag að óásættanlegt væri að farnar séu ferðir í náttúrulega íshella að sumarlagi.