Rússar grunaðir um að trufla staðsetningartæki í flugvél von der Leyen

Rússar eru grunaðir um að hafa truflað staðsetningarbúnað í flugvél Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í gær. Búnaðurinn hætti að virka þegar flugvélin nálgaðist búlgörsku borgina Plovdiv. Flugmennirnir gátu því ekki lent með hefðbundnum hætti. Eftir að hafa hringsólað í nágrenni flugvallarins í um klukkustund ákváðu þeir að notast við pappírslandabréf til að lenda flugvélinni. „Við getum staðfest að staðsetningarbúnaðurinn var truflaður með rafrænum hætti en flugvélinni var lent örugglega í Búlgaríu,“ sagði Arianna Podesta, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Við höfum fengið upplýsingar frá búlgörskum yfirvöldum um að þau gruni að þetta sé blygðunarlaus truflun af hálfu Rússa.“ Financial Times sagði fyrst frá atvikinu og hafði það eftir ónafngreindum búlgörskum embættismönnum. Einn þeirra sagði að staðsetningartæki flugvélarinnar hefði engar upplýsingar gefið um umhverfi flugvallarins. Þetta sagði hann að væri augljóslega verk Rússa sem hafa ítrekað verið sakaðir um að trufla staðsetningartæki flugvéla í austanverðri Evrópu.