Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fallið frá rannsókn máls er lýtur að meintum kynferðisbrotum föður gegn barnungri dóttur sinni. Landsréttur ógilti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögregla mætti rannsaka síma og fartölvu mannsins. Maðurinn hélt því fram að viðkvæm gögn sem tengdust tilteknum stjórnmálaflokki væri að finna í raftækjunum. Dóttir hans hafði lýst því í leikskóla sínum að pabbi hennar hefði stundum meitt hana á kynfærasvæðinu og stungið einhverju inn í kynfæri hennar, stundum svo mikið að það blæddi úr þeim. „Þetta er bara mjög bagalegt og hagsmunir barnsins ekki hafðir að leiðarljósi,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir úrskurð Landsrétt koma sér verulega á óvart. Hún segir lögregluna ekki hafa haft annarra kosta völ en að falla frá rannsókninni í kjölfar úrskurðarins. Landsréttur tiltók í úrskurði sínum að lögregla hefði hvorki útskýrt hvernig síminn og tölvan tengdust meintu broti mannsins né hvaða upplýsingar þar gæti verið að finna sem skiptu miklu fyrir rannsóknina. Spurð hvort tíðkist að rannsaka raftæki grunaðra í málum sem þessum svarar Bylgja játandi. „Það er akkúrat það sem við höfum gert í gegnum tíðina.“ Hún kveðst ekki þekkja nein fordæmi þess að hagsmunir stjórnmálaflokks séu teknir fram yfir hagsmuni barns. Hún bendir sömuleiðis á að það hefði verið manninum til bóta, og jafnvel leyst hann undan grun, að leyfa lögreglu að fara í gegnum raftækin, ef ekkert væri á þeim að finna. Fréttin var uppfærð með nýrri fyrirsögn.