Icelandair tók í dag við innanlandsflugi til Hornafjarðar. Dash 8 200 vél félagsins lenti á Hornafjarðarflugvelli í morgun. Aukin not fyrir vélarnar eykur líkur á að Icelandair haldi áfram að fljúga þeim til Ísafjarðar. Í vor urðu þau tíðindi að Vegagerðin bauð út ríkisstyrk fyrir flug milli Reykjavíkur og Hornafjarðar og Icelandair átti besta boð. Samið var til þriggja ára og fær Icelandair samtals einn milljarð og tæpar 260 milljónir í ríkisstyrk fyrir að halda fluginu úti næstu þrjú árin eða út ágúst 2028 og framlengja má samninginn um allt að tvö ár. Vikulegum ferðum fækkar en fleiri sæti verða í boði Áður voru farnar átta ferðir á viku en nú fækkar þeim niður í fimm. Sumaráætlun gildir frá júní og út september og þá er ekki flogið á þriðjudögum og laugardögum. Vetraráætlun gengur svo í gildi í október og þá verður ekki heldur flogið á fimmtudögum en í staðinn verða tvær ferðir á miðvikudögum. Á veturna verða því miðvikudagar þeir dagar þar sem hægt verður að fljúga heim samdægurs. Þó að ferðum fækki eykst sætaframboð því Dash átta 200 vélarnar eru stærri og taka 37 manns. 19 sæta vélar Ernis eða Mýflugs voru yfirleitt fullar. Icelandair notar sömu vélar og fljúga til Ísafjarðar en flugið þangað hefur verið í óvissu. Hornafjarðarflugið bætir nýtingu á vélunum og eykur líkur á að þær haldist í flotanum. Ísafjörður stendur ekki einn undir Dash 8 200 vélunum „Ef farin verður sambærileg leið varðandi Ísafjörð og með Hornafjörð, að sú flugleið verði boðin út, þá munum við væntanlega taka þátt í því útboði. Grænlandsflugið er að breytast mikið með nýjum flugvöllum og lengri flugvöllum þannig að það verða ekki lengur not fyrir Dash 8 200 vélarnar þangað og það var meginástæðan fyrir þessari ákvörðun okkar varðandi Ísafjörð; að nýtingin á vélunum var að minnka og einn áfangastaður stóð ekki undir þeim flugflota. Þannig að það er mjög jákvætt að fá Höfn inn í kerfið hjá okkur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Icelandair sér tækifæri á Hornafirði Bogi segir að Icelandair sé ekki með fleiri nýja áfangastaði innanlands staði til skoðunar eins og er en fyrirtækið eigi í samtali við stjórnvöld um innanlandsflugið. Það sé mikilvægt í starfsemi Icelandair og tenging við millilandakerfið sé að styrkjast. „Við erum að sjá, sérstaklega yfir sumartímann, talsverðan fjölda ferðamanna í flugvélum hjá okkur innanlands, sérstaklega til Akureyrar. Við sjáum bara tækifæri fyrir Höfn. Það er náttúrulega frábær áfangastaður fyrir ferðamenn. Og við sjáum tækifæri á Egilsstöðum líka; að styrkja flæði ferðamanna beint austur,“ segir Bogi.