Stöðvun málþófs um veiðigjöld á Alþingi í vor hefur áhrif á þingstörf í haust að mati Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálaprófessors. Hann segir Ólaf Adolfsson, nýjan þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, tala skýrt út um það að íslenska þjóðin sé þreytt á málþófi og sætti sig ekki við þannig vinnubrögð. „Hann lagði áherslu á ný vinnubrögð, að reyna að ná sátt við meirihlutann um framgang mála. Það þýðir auðvitað ekki að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að vera í harðri stjórnarandstöðu og það er enginn sem er að biðja um sátt í þinginu um þingstörfin. Það er enginn að biðja um að menn séu sammála um allt í pólitík. Auðvitað eiga menn að vera ósammála í pólitík,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Ef stuðla á að framförum í störfum þingsins væri best að skipa nýliða sem þingflokksformenn í stað gamalla karla sem hafa sjálfir reynslu af málþófum, að mati stjórnmálafræðiprófessors. „Allt, allt annar tónn“ Stjórnmálafræðiprófessorinn Ólafur segir þingflokksformanninn Ólaf boða breytingar á vinnubrögðum í störfum þingsins. „Þarna var sleginn allt, allt annar tónn heldur en maður heyrði frá Sjálfstæðisflokknum á síðasta þingi og þetta gefur manni kannski von um það að í staðinn fyrir að eins og ýmsir héldu að þetta nýja þing myndi einkennast fyrst og fremst að hörðum átökum og að stjórnarandstaðan reyndi að lama þingið og vera fyrir í öllum málum, þá sé Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til þess að vinna að því að þingstörfin fari fram með skaplegum hætti eins og gerist hér í nágrannalöndum.“ Ólafur er hrifinn af þeirri þróun að nýliðar á þingi gegni formennsku þingflokka, rétt eins og í Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Flokki fólksins. „Kannski væri það nú bara best ef það ætti að stuðla að einhverjum verulegum framförum í störfum þingsins að það væru nýliðar sem færu í það verk, ekki einhverjir gamlir karlar sem hafa sjálfir reynslu af málþófum og þegar það er talað um málþóf fara þeir gjarnan að segja hetjusögur af sjálfum sér.“