Breytt örorkukerfi snertir 30 þúsund manns

Breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem snerta hátt í 30 þúsund manns taka gildi í dag og voru kynntar í Grósku fyrir hádegi. Flestir fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Tryggingastofnun greiddi 1200 milljónum meira í örorku- og endurhæfingalífeyrisþega í dag en um síðustu mánaðarmót, að því er segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu. Alþingi samþykkti lög um endurskoðun á kerfinu í júní 2024 og hefur undirbúningur staðið síðan. Í breytingunum er meðal annars tekið upp samþætt sérfræðimat og fallið frá læknisfræðilegu örorkumati. Í því felst að gert er heildrænt mat á lífeyrisþeganum og færni sem hann metur meðal annars sjálfur. Þá er geta viðkomandi á vinnumarkaði metin. Þá á að setja á fót samhæfingarteymi sem á að stuðla að samfellu í þjónustu fyrir fólk með flóknar þjónustuþarfir sem þurfa á fleirum en einum þjónustuaðila að halda í endurhæfingu. Hlutaörorkulífeyrir er einnig nýbreytni og er ætlaður þeim sem geta verið í hlutastarfi, eða metnir með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Frítekjumörk eru hærri en áður og fólk getur haft 350 þúsund í tekjur á mánuði án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun lækki.