Mótmæli gegn framferði Ísraelsmanna á Gaza sem urðu til þess að ekkert varð af fundi sem halda átti í Háskóla Íslands í sumar verða til umræðu í Silfrinu í kvöld. Silja Bára Ómarsdóttir rektor verður gestur í þættinum og ræðir atvikið og umræðuna sem hefur sprottið upp af því. Mótmælendur komu í veg fyrir að ísraelski hagfræðiprófessorinn Gil Epstein gæti haldið fyrirlestur um áhrif gervigreindar á vinnumarkað og lífeyrismál á vegum Rannsóknastofnunar um lífeyrismál. Þau mótmæltu framferði Ísraelsmanna á Gaza og því að prófessor við háskóla sem styddi hernaðinn héldi erindi hér. Að lokum varð ekkert úr erindinu þar sem komið var í veg fyrir það með köllum. Nokkur umræða hefur orðið um atvikið, ekki síst um hvort brotið hafi verið gegn akademísku frelsi og tjáningarfrelsi Epsteins með því að koma í veg fyrir að hann gæti flutt erindi sitt. Silja Bára tjáði sig fyrst um málið í pistli í fréttabréfi til nemenda við Háskóla Íslands í síðustu viku þar sem hún lagði ríka áherslu á að háskólar séu vettvangur málfrelsis og frjálsra skoðanaskipta. Hún sagði þó eðlilegt að spyrja sig hvenær frelsi eins til að tjá skoðanir sínar með mótmælum gengi á frelsi annars til að tjá sig. Silfrið er á nýjum tíma. Það hefst í sjónvarpinu klukkan 20.15 í kvöld. Aðrir gestir Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í kvöld verða Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur og Gylfi Magnússon hagfræðingur. Þau ræða verkefni vetrarins framundan; sveitarstjórnarmálin, efnahagsmálin og ókyrrð og væringar á alþjóðavettvangi.