Engin raunveruleg trygging er fyrir því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði hrint í framkvæmd meðan engar skuldbindingar er að finna um fjármögnun hennar. Þetta segja fjögur samtök launafólks í sameiginlegri umsögn sinni um frumvarp til laga um loftslagsmál. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, setti frumvarp sitt í samráðsgátt til kynningar í sumarbyrjun. Markmiðið er setning nýrra heildarlaga um loftslagsmál. Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB og Kennarasamband Íslands skila sameiginlegri umsögn um frumvarpið. Þau fagna því að meginreglan sé að tryggja afkomu launafólks og verja vinnumarkaðstengd réttindi þess auk þess sem loftslagsbreytingar eigi ekki að leiða til aukins ójöfnuðar. Samtökin gera þó ýmsar athugasemdir. Ein er sú að fjármögnun aðgerðaáætlunar sé í lausu lofti þar sem engin ákvæði sé að finna þar sem stjórnvöld skuldbindi sig til að fjármagna hana. Aðeins sé vísað til þess að hver ráðherra standi straum af aðgerðum á sínu málefnasviði eftir því sem fjárheimildir leyfa. „Slík vísun til almenns fjárhagslegs svigrúms ráðuneyta veitir enga raunverulega tryggingu fyrir því að aðgerðaáætlun verði hrint í framkvæmd.“ Samtökin gera einnig athugasemdir við að launafólk fái ekki að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á tveimur vettvöngum þar sem fjallað er um loftslagsmál. Annar er loftslagsráð sem ráðherra leggur til að verði breytt þannig að þar sitji aðeins sérfræðingar á sviði loftslagsmála en að fulltrúar launafólks og atvinnurekenda víki úr þeim sætum sem þeir hafa haft. Þá gagnrýna þau að Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum, hafi allt frá upphafi árið 2019 verið án aðkomu launafólks. Þar sitji fimm fulltrúar stjórnvalda og jafn margir fulltrúar samtaka atvinnulífsins en enginn fulltrúi launafólks.