„Peningar skipta máli en þeir gera fólk hvorki merkilegt né ómerkilegt“

Rithöfundurinn og athafnamaðurinn Ólafur Jóhann Ólafsson hefur búið í Bandaríkjunum um árabil. Hann er á Íslandi vegna nýrrar uppfærslu Baltasars Kormáks á nýju leikverki hans. Steinunn Ása Þorvaldsdóttir ræddi við Ólaf Jóhann í þættinum Með okkar augum á RÚV. Þar spurði hún hann hvers vegna hann hefði búið svona lengi í Bandaríkjunum. „Ég fór þangað að læra 1982 þegar ég var ungur maður. Ég ætlaði bara að læra og koma svo aftur til Íslands en svo var mér boðin vinna. Ég sagðist ætla að prófa þetta í tvö ár og flutti til Kísildals í Kaliforníu. Þessi tvö ár urðu nokkuð fleiri.“ Nú flakkar hann mikið á milli Bandaríkjanna og Íslands. Hann segist ekki hræddur um að Bandaríkin séu að eyðileggjast vegna breytts pólitísks landslags. „Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Stundum blæs á móti og stundum er byr í seglin. En ég held að við lifum þetta nú öll af.“ Hann sé heldur ekki hræddur við Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Ég er kannski ekki sammála honum í mörgu en ég held að með hann, þá sé svolítið mikilvægt að sjá hvað hann gerir og minna hlusta á hvað hann segir.“ Peningar skipta máli en gera fólk hvorki merkilegt né ómerkilegt Þó svo að Ólafur Jóhann hafi farið mikinn í viðskiptalífinu vestanhafs þá var skáldskapurinn aldrei langt undan. Steinunn Ása spyr hvort hann hafi nokkuð vitað hvað hann vildi verða. „Kannski vildi ég verða svo margt,“ segir hann. „Ég held ég hafi nú gert það sem mig langaði að gera. Mig langaði að skrifa og ég hef gert það. Svo langaði mig líka að stússa í fyrirtækjarekstri og vera með mörgu fólki, því þegar maður er að skrifa þá er maður bara einn með sjálfum sér og sögupersónunum sínum – en þegar maður rekur fyrirtæki, eins og ég gerði í mörg ár, þá eru margir í kringum mann.“ Hann segist hafa haft gaman af hvoru tveggja. Hann hafi starfað sem aðstoðarforstjóri Sony, svo forstjóri Advanta um skeið og svo sem aðstoðarforstjóri Time Warner Digital Media til ársins 2018. Þó svo að hann hafi efnast vel segir hann það ekki hafa breytt sér. „Peningar eru ekki mælikvarði á neitt í rauninni. Þeir sem segja að peningar skipti ekki máli hafa aldrei þurft að hafa fyrir því að láta enda ná sama, eiga fyrir húsaleigu í lok mánaðar og svo framvegis,“ segir Ólafur Jóhann. „Peningar skipta máli, við vitum það öll. Við þurfum öll að greiða okkar reikninga. En þeir gera hvorki fólk merkilegt né ómerkilegt.“ Ólafur Jóhann ólst upp á miklu bókmenntaheimili enda sonur eins dáðasta rithöfundar þjóðarinnar, Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, og Önnu Jónsdóttur húsfreyju. „Það var bara yndislegt. Pabbi var rithöfundur og það var mikið af skáldum og rithöfundum á heimilinu þegar ég var strákur.“ „Ég byrjaði strax að hlusta á hvað fólk hafði að segja, byrjaði snemma að lesa og lesa bækur og hafa áhuga á þessu. Það var bara hluti af uppeldinu og mjög ánægjulegt.“ „Þetta er svona drama en vonandi gaman líka“ Auk þess að skrifa skáldsögur, smásögur og ljóð skrifar Ólafur Jóhann líka leikrit. Nýjasta leikverk hans, Íbúð 10B, verður sýnt í Þjóðleikhúsinu og er sagt vera ögrandi og meinfyndið. Steinunn Ása telur ólíklegt að það hafi orðið til af sjálfu sér. „Nei, það svona skaut upp kollinum. Maður fær einhverja hugmynd og svo fer hún að vaxa. Svo fer hún í ýmsar áttir og fellir þetta allt saman. Þegar þetta er búið að gerjast þá byrjar maður að skrifa, það er svona meðgöngutími.“ Verkið fjallar um íbúa í glæsilegu fjölbýli Reykjavíkur sem hittast til að leggja á ráðin um viðbrögð við því að einn eigandinn ætli að breyta lúxusíbúð sinni í gistiheimili fyrir hælisleitendur. Á borðum eru góðir ostar og vín, en notaleg kvöldstund snýst brátt upp í harðvítug átök þar sem lögmál frumskógarins gilda undir kurteislegu yfirborðinu. Ólafur Jóhann segist spenntur fyrir ferlinu, það verði gaman að sjá verkið lifna við á sviði. Hann segist vona að verkið sé bæði dramatískt og spennandi, að fólk vilji sjá hvað gerist næst. „Þetta er svona drama en vonandi gaman líka.“ „Ég held að ég sé bara sami guttinn“ Ólafur Jóhann á að baki langan feril en telur sig þó vita hver hann er í dag. „Það er sagt stundum að mikilvægast sé að þekkja sjálfan sig. Það er grundvöllurinn fyrir því að maður skilji eitthvað annað.“ „Ég held að ég sé bara sami guttinn og ólst upp á Suðurgötu í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratugnum. Þá var ég svolítið ódæll en ég fel það betur núna. Ég held að ég sé alveg sami náunginn samt.“ Það besta sem lífið gefi honum séu tækifæri til að njóta samvistar við gott fólk og náttúruna og láta gott af sér leiða. Hann vilji líka reyna að koma einhverju í verk. Með árunum finni hann hvað skipti hann máli og hvað ekki. Eftir því sem hann eldist þá verði það einfaldara og augljósara hvað það sé sem skipti hann mestu máli og það séu vinirnir og fjölskyldan. „Kannski einhver verkgleði líka, að geta sent eitthvað frá sér, skapað eitthvað, búið eitthvað til sem vonandi aðrir hafa ánægju af og vekur til umhugsunar.“ Rithöfundurinn Ólafur Jóhann segir það ekki hafa breytt sér að efnast, hann sé enn þá sami guttinn sem ólst upp á Suðurgötu í Reykjavík. Hann eigi langan feril að baki og viti hver hann er og hvað skiptir hann máli: samvera og láta gott af sér leiða. Rætt var við Ólaf Jóhann Ólafsson í Með okkar augum á RÚV. Hægt er að finna þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan.