„Maður verður bljúgur og ótrúlega þakklátur öllu því fólki sem hefur verið að leggjast á árarnar við það að gera þetta að veruleika,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, á kynningarfundi ráðuneytisins um breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem taka gildi í dag. „Þessi vinna var hafin áður og undirbúningur að þessu fallega kerfi af fyrirrennara mínum og fólkinu í ráðuneytinu,“ benti Inga á, rétt eins og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á í aðsendri grein á Vísi í morgun. Guðrún rifjar upp að Flokkur fólksins hafi setið hjá í lokaatkvæðagreiðslu um lög um breytingar á örorkukerfinu í júní í fyrra. „Nú kynnir félags- og húsnæðisráðherra úr þeim flokki reglugerðir sem hrinda kerfinu í framkvæmd. Það er gott að fleiri taki undir í dag og ráðherranum hafi snúist hugur, en upprunalegt frumkvæði, heildstæð stefna og áralöng barátta liggja hjá Sjálfstæðisflokknum,“ skrifar Guðrún. Breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu snerta hátt í 30 þúsund manns. Flestir fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Tryggingastofnun greiddi 1.200 milljónum meira í örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í dag en um síðustu mánaðamót, að því er segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu. Í breytingunum er meðal annars tekið upp samþætt sérfræðimat og fallið frá læknisfræðilegu örorkumati. Í því felst að gert er heildrænt mat á lífeyrisþeganum og færni sem hann metur meðal annars sjálfur. Þá er geta viðkomandi á vinnumarkaði metin. Breytingarnar eiga að koma í veg fyrir að fólk lendi á milli kerfa Inga segir breytingarnar einnig eiga að koma í veg fyrir að fólk lendi á milli kerfa. „Við erum að tryggja það að þessir einstaklingar munu strax ganga inn á endurhæfingarlífeyrinn ef þau hafa verið metin til starfsendurhæfingar. Það er eitt risaskref.“ Það er mannauður í öryrkjum Inga segir nýtt kerfi einstaklingsmiðaðra. „Við munum svara hverjum og einum eftir hans þörfum. Ég sé fyrir mér sólina vera að koma upp fyrir okkur öryrkja. Við viljum hjálpa öllum að komast í virkni, við viljum gera lífið svo miklu betra. Það er mannauður í öryrkjum eins og öllum öðrum. Nú er komið að þeim að taka þátt í fallega samfélaginu okkar.“