Segja Kennedy stofna heilsu allra Bandaríkjamanna í hættu

Fyrirmæli og kröfur Roberts Kennedys, heilbrigðisráðherra í Bandaríkjunum, til stjórnenda sóttvarnastofnunar landsins eru ekki í neinu samræmi við störf forvera hans í embætti. Þetta segja níu fyrrverandi yfirmenn stofnunarinnar í aðsendri grein í The New York Times. Yfirmennirnir fyrrverandi gegndu embættinu bæði í forsetatíð Demókrata og Repúblikana allt frá árinu 1977. Þeir sammælast um að gjörðir Kennedys í embætti síðustu mánuði eigi sér ekki sinn líka í sögu embættisins. Þau vísa bæði til framgöngu hans gagnvart embættinu og starfsmönnum þess og til víðtækra uppsagna á heilbrigðisstarfsfólki og niðurskurði á verkefnum sem ætlað er að tryggja fólki heilbrigðisþjónustu og öruggara umhverfi. „Hann skipti út sérfræðingum í ráðgjafarnefndum um heilbrigðismál og skipaði í þeirra stað óhæfa einstaklinga sem deila hættulegum og óvísindalegum viðhorfum hans,“ stendur í greininni. Þar er einnig vísað í hvernig Kennedy hefur skorið niður greiðslur til bólusetninga. Síðasta dæmið er brottrekstur Susan Monarez, yfirmanns sóttvarnastofnunarinnar, sem neitaði að lýsa stuðningi við stefnu hans þegar kemur að bólusetningum og ákvað að fara ekki að fyrirmælum hans um að reka háttsetta starfsmenn stofnunarinnar. „Ekkert okkar hefði farið að kröfum ráðherrans og við hrósum Monarez fyrir að standa vörð um stofnunina og heilbrigði í samfélögum okkar.“