Mikið manntjón í Afganistan miðað við stærð skjálftans

Jarðskjálfti sem var sex að stærð reið yfir Afganistan í nótt. Yfirvöld hafa lýst því yfir að 800 manns, hið minnsta, hafi farist og um 3.000 slasast. Jarðskjálftar eru algengir í landinu og árið 2023 fórust um 2.000 í skjálfta sem var 6,3 að stærð. Árið áður fórust um þúsund manns í skjálfta. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, útskýrir að Afganistan sé á skilum Evrasíuflekans og Indlandsflekans. Sá síðarnefndi sé á hraðri norðurleið og því verði skjálftar. Mikið tjón þrátt fyrir að skjálftinn teljist ekki stór Skjálftinn í nótt var á um átta til tíu kílómetra dýpi. „Þegar talað er um dýpi skjálfta þá náttúrulega erum við að tala um dýptarbil, upptökin eru á þessu dýpi,“ segir Páll. „Þetta er skjálfti sem verður vegna þess að jarðskorpan og efstu lögin eru að brotna undan þessu álagi. Indland er að troðast þarna upp í þetta meginland og þá brotnar jarðskorpan upp úr og niðrúr og þetta er nálægt yfirborði sem er sennilega ástæðan fyrir því að þetta veldur þetta miklu tjóni þó að þetta sé tiltölulega lítill skjálfti. Þetta er þrátt fyrir allt ekki mjög stór skjálfti,“ segir Páll um sjálftann sem var sex að stærð. 800 manns, hið minnsta, fórust í jarðskjálfta í Afganistan í nótt. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að eftirtektarvert sé hve mikið manntjón varð miðað við stærð skjálftans. Hús á þessum slóðum eru oft byggð úr leir og steinum. Skjálftinn í Afganistan í nótt var 6,0 að stærð og segir Páll það ekki stóran skjálfta í samanburði við ýmsa aðra skjálfta. Hér á landi hafi komið skjálftar sem eru 6 að stærð og 6,5. Slíkir skjálftar verði aðallega á skjálftasvæðum á Suðurlandi og fyrir Norðurlandi. Fimm ár séu síðan skjálfti sem var 6,0 að stærð hafi riðið yfir fyrir norðan land. Skjálftar á Suðurlandi árið 2000 hafi verið 6,5 að stærð. „Þannig að þessi skjálfti er ekki stór svona í þeim samanburði, ég tala nú ekki um ef við berum saman við Kamtsjatka-skjálftann sem var risaskjálfti.“ Algengt að samgöngur fari úr skorðum á hamfarasvæðum Ljóst er að eyðileggingin eftir skjálftann í Afganistan í nótt er mikil og sum þorp talin nær jöfnuð við jörðu. Yfirvöld í Afganistan segja að 800 hafi farist en óttast er að fleiri eigi eftir að finnast látnir í rústum húsa. Páll segir að í hamförum sem þessum líti mannfall og tjón oft út fyrir að vera minna í byrjun en það sé í raun og veru. „Þetta land er mjög fjöllótt og það fyrsta sem bilar í svona skjálfta er samgöngukerfið þannig að samgöngur detta niður og fréttir berast illa frá aðaltjónasvæðinu.“ Þá segir Páll eftirtektarvert hversu mikið manntjón hafi orðið í svo litlum skjálfta. Það hljóti að stafa af því hve mikið af húsum hafi hrunið. „Hús á þessum slóðum eru að miklu leyti byggð úr leir og steini og þau þola ekki mikinn titring og það er líklega ástæðan fyrir þessu mikla mannfalli.“