Flugmenn sem eiga bótakröfu hjá flugfélaginu Bláfugli óttast að fá ekkert í sinn hlut eftir að flugfélagið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í síðasta mánuði. Félagið skuldaði ellefu flugmönnum félagsins um 90 milljónir króna að meðtöldum dráttarvöxtum og málskostnaði vegna ólögmætra uppsagna. Tæp fimm ár eru liðin síðan flugmönnunum var sagt upp og aðrir ráðnir inn nýja gegnum starfsmannaleigur, þvert á forgangsréttarákvæði kjarasamninga. Það var loks í sumar sem Landsréttur staðfesti ólögmæti uppsagnanna og bótakröfurnar. Stuttu eftir það óskaði félagið eftir gjaldþrotaskiptum og í Lögbirtingablaðinu er skorað á kröfuhafa að lýa kröfum innan tveggja mánaða. Fljúga enn til landsins á nýju leyfi Flugmenn sem fréttastofa hefur rætt við furða sig á því að hægt sé að keyra félagið í þrot en halda áfram starfsemi undir nýrri kennitölu. Litháíska samstæðan Avia Solutions Group, sem átti Bláfugl, flýgur enn daglega til landsins og þar á meðal með sömu vélum og sama flugnúmeri og áður. Eini munurinn er sá að nú er flogið undir flugrekstrarleyfi annars dótturfélags, AirExplore sem er með skráð í Slóvakíu. „Þeir hafa verið með alls konar hrókeringar til að færa eignir undan,“ segir Sonja Bjarnadóttir Backman, lögmaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), sem hefur rekið málið í að verða fimm ár, fyrst fyrir Félagsdómi, síðar héraðsdómi og loks Landsrétti. Þrátt fyrir að bera sigur fyrir öllum þessum dómum óttast flugmenn að fá ekkert í sinn hlut enda litlar sem engar eignir í þrotabúinu. Lára V. Júlíusdóttir, sérfræðingur í vinnumarkaðsrétti, staðfestir í samtali við fréttastofu að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist ekki kröfurnar og þær njóti heldur ekki forgangs. Ábyrgðasjóðurinn hefur það hlutverk að tryggja launafólki greiðslur ef vinnuveitandi fer í þrot, en sjóðurinn ábyrgist ekki kröfur svo langt aftur í tímann. Áður en flugfélagið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum hafði það reynt að semja við flugmennina um lægri bætur en dómurinn kvað á um. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hljóðaði tilboðið upp á innan við helming dæmdra bóta. „Það kom aldrei til greina enda fáránleg vinnubrögð í réttarríki,“ segir Sonja.