Fyrrum ráðherra í Danmörku hlaut í dag fjögurra mánaða dóm fyrir að hafa í tölvu sinni og síma yfir 6.000 myndir og 2.000 myndbönd sem sýna börn á kynferðislegan hátt. Ráðherrann fyrrverandi, Henrik Sass Larsen, sat á danska þinginu frá 2000 til 2019 fyrir Jafnaðarmannaflokkinn og var viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt frá 2013 til 2019. Larsen hefur neitað því að hafa brotið lög og gefið þær útskýringar að hann hafi verið með þessar myndir því að hann hafi verið beittur kynferðisofbeldi í æsku og væri að reyna að komast að því hver hafi brotið gegn honum. Larsen var í fóstri áður en hann var ættleiddur. Við réttarhöldin sagði hann að árið 2018 hafi hann fengið sent 50 ára gamalt myndefni af því þegar hann var misnotaður kynferðislega þegar hann var þriggja ára. Myndbandið hafi horfið eftir að hann hafi horft á það. Þá kvaðst Larsen sjá eftir því að hafa ekki tilkynnt lögreglu um myndbandið á sínum tíma. Saksóknari málsins, Maria Cingari, kveðst sátt við niðurstöðu dómara, að Larsen hljóti fjögurra mánaða dóm. Fólk eigi aldrei að hafa barnaníðsefni í fórum sínum, sama hver ástæðan sé. Eftir að fjallað var um málið í dönskum fjölmiðlum var Larsen vikið úr Jafnaðarmannaflokknum. Mette Frederiksen, leiðtogi flokksins og forsætisráðherra, lýsti málinu sem áfalli.