Þórhildur Sunna er framkvæmdastjóri alþjóðlegra samtaka um vernd uppljóstrara

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, mannréttindalögfræðingur og fyrrverandi þingmaður og þingflokksformaður Pírata, er tekin við stöðu alþjóðlegs framkvæmdastjóra samtakanna Courage International. Þessu greinir hún frá á Facebook . Courage International eru samtök sem helga sig baráttunni fyrir frjálsu flæði upplýsinga, tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi og friðhelgi einkalífsins, að því er fram kemur á vef samtakanna . Þórhildur Sunna segir samtökin hafa unnið gríðarlega mikilvægt starf við verndun uppljóstrara og blaðamanna sem sæta árásum eða refsiviðurlögum allt frá árinu 2014. Stærstu verkefni samtakanna hafi falist í því að styðja við uppljóstrara á borð við Edwards Snowden og berjast fyrir frelsi Julians Assange, sem jafnframt stofnaði samtökin. Fyrsta verkefni samtakanna á Íslandi undirbúningur Þjóðar gegn þjóðarmorði Þórhildur Sunna segir miklar breytingar fram undan hjá samtökunum og hún vinni hörðum höndum að því að gera þau að enn öflugri. Fyrsta verkefni Courage International á Íslandi verði aðkoma samtakanna að undirbúningi fundarins Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn verður víðs vegar um landið á laugardaginn. „Þjóðarmorð Ísraelsríkis á Palestínsku þjóðinni sem nú stendur yfir hefur kostað fleiri blaðamenn lífið en öll stríð frá upphafi fyrri heimstyrjaldar samanlagt og erindi Courage því brýnt í þessu samhengi,“ skrifar Þórhildur Sunna.