Enginn verði neyddur til að vinna ef viðkomandi treystir sér ekki til

Meðal breytinga á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem tóku gildi í dag er hlutaörorkulífeyrir sem er ætlaður þeim sem geta verið í hlutastarfi eða eru metnir með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að þeir einstaklingar sem falla undir hlutaörorkukerfið ættu ekki að hafa áhyggjur af því að neyðast til þess að vinna ef þeir treysta sér ekki til þess. „Við höfum áralanga reynslu í að aðstoða fólk með skerta starfsgetu inn á íslenskan vinnumarkað. Núna bætum við bara í,“ segir Unnur sem tekur einnig fram að unnið verði einstaklingsmiðað að því að aðstoða fólk. „Það verður enginn píndur í einhverja vinnu sem hann hvorki treystir sér í eða telur sig ráða við, það er alls ekki þannig,“ segir hún. „Við pörum saman starfið og atvinnuleitandann og þetta verður allt að ganga upp.“ Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að enginn verði neyddur til vinnu sem viðkomandi treystir sér ekki til með þeim breytingum á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem tóku gildi í dag. Þó þurfi að fjölga hlutastörfum til að kerfið virki sem skyldi. „Þetta er bylting á örorkulífeyriskerfinu,“ segir Unnur um breytingarnar sem tóku gildi í dag og voru kynntar á fundi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins. „Það er alveg verið að breyta um nálgun. Það er ekki verið að spyrja hvað geturðu ekki? heldur hvað geturðu? Hvar eru styrkleikarnir? Hvar liggur áhuginn og hver er starfsgetan?“ Nauðsynlegt að fjölga hlutastörfum Unnur hefur talað fyrir því að fjölga þurfi hlutastörfum svo örorku- og endurhæfingarkerfið virki sem skildi. Mikil vinna hafi farið í kynningu á breytingunum á vinnustöðum, hjá opinberum stofnunum, hagsmunasamtökum og í sveitarfélögum. „Við erum að reyna að byrja að vinna í haginn og höfum verið að gera það til að reyna að afla fleiri hlutastarfa,“ segir Unnur sem segir mikilvægt að bjóða fólk velkomið inn á vinnumarkaðinn.