Spánverjar ekki nógu vel undirbúnir til að takast á við gróðurelda

Forsætisráðherra Spánar segir yfirvöld alls ekki hafa verið nógu vel undirbúin fyrir mikla góðurelda í sumar. Eldarnir eru orðnir að pólitísku hitamáli. Aldrei hefur eins mikið land brunnið í gróðureldum á Spáni og í sumar. Fjórir fórust og þúsundir neyddust til að yfirgefa heimili sín. Forsætisráðherra landsins, Pedro Sanchez, sagði í dag ljóst að undirbúningur yfirvalda til að bregðast við hitabylgju og gróðureldum hafi ekki verið nægur. Hann kynnti átak stjórnvalda og sagði þörf á að fjölga slökkviliðsmönnum og landvörðum. Eins þurfi að fjárfesta í nákvæmari mælitækjum til að geta séð fyrir þegar stefni í hamfarir. Forsætisráðherrann sagði gróðurelda í dag vera alvarlegri og ófyrirsjáanlegri en áður vegna loftslagsbreytinga. Þeir væru einnig banvænni og hættulegri. Flokkur forsætisráðherrans, Sósíalistaflokkurinn, og Lýðflokkurinn, helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, deila um það hverjum sé um að kenna. Sósíalistar saka Lýðflokkinn um að hafa ekki búið sig undir heitt sumar í þeim héruðum þar sem flokkurinn fer með völd. Þá saka þeir Lýðflokkinn um að gera lítið úr þeirri ógn sem hlýnun loftslags ber með sér. Lýðflokkurinn, aftur á móti, segir eldana mega rekja til íkveikja og sakar ríkisstjórnina um að ganga of langt í sparnaði, slíkt hafi til að mynda áhrif á það hve mikla aðstoð herinn getur veitt.