Sumud-flotinn snýr við á leið sinni til Gaza vegna veðurs

Tuttugu skipa floti sem lagði úr höfn í Barcelona í gær til Gaza neyddist til að snúa við í dag vegna óveðurs. Hópurinn ætlar að bíða af sér veðrið, segir í yfirlýsingu. Það sé of mikill vindur til að þorandi sé að halda áfram á minnstu bátum flotans. Flotinn er með hjálpargögn sem til stendur að afhenda nauðstöddum á Gaza. Sameinuðu þjóðirnar lýstu á dögunum yfir hungursneyð þar. Með í för er loftslagsaðgerðasinninn sænski Greta Thunberg, auk fyrrverandi borgarstjóra Barcelona, Ada Colau. Ísraelsher situr um Gaza bæði á sjó og landi og hleypir sáralitlu af neyðargögnum þangað. Thunberg fór einnig með flota að Gaza í júní. Þá stöðvuðu ísraelskir hermenn bát hennar á alþjóðlegu hafsvæði, tóku hana og fleiri höndum og vísuðu frá Ísrael. Búist er við að flotinn leggi í hann við fyrsta tækifæri og verði kominn til Gaza um miðjan september. Flotinn nefnist Alþjóðlegi Sumud-flotinn . Orðið sumud þýðir þrautseigja á arabísku.