Spila póker og kyssast í sófanum í símabanni

Ár er liðið síðan Akureyrarbær lagði línur um tækjanotkun fyrir alla níu grunnskóla sveitarfélagsins. Símar eru bannaðir í skólunum, að frátöldum símatíma einu sinni í viku. Kennarar segja bannið hafa reynst vel. Stundum hafi þó reynst krefjandi að framfylgja því. Nemendur í Naustaskóla hefja daginn á því að skila af sér farsímum í læsta skápa. Andri Snær Stefánsson, umsjónarkennari á unglingastigi í Naustaskóla, segir að unglingarnir séu þó útsjónasamir. Sumir hafi sett gamla farsíma í hólfin til að geta haft sinn með sér í tíma og starfsfólk skólans þurfi því að vera vel vakandi til að framfylgja símaleysinu. „Þetta er eitthvað sem við einmitt erum líka að læra inn á og það ber bara að hrósa krökkunum fyrir góðar hugmyndir og að finna leiðir,“ segir Andri Snær. Íslenskir grunnskólanemar búa við mismunandi reglur um símanotkun á skólatíma. Sums staðar eru símar læstir inni í skápum strax að morgni. Einn kennari segir engan vafa um að börnunum líði betur án þeirra. Nemendur eru margir ánægðir með takmarkanir. Betri samskipti og kossaflens Starfsmenn Naustaskóla hafa ekkert nema gott af símafríinu að segja og vilja taka málin enn fastari tökum á nýju skólaári. „Mér finnst ég sjá bara augljóslega tengingu þarna á milli, nemendur eru með betri einbeitingu í tímum, þeim líður betur og eru bara ferskari,“ segir Andri Snær. Þá sjái starfsmenn skólans einnig að samskiptavenjur unglinganna séu að breytast. „Það er ótrúlega ánægjulegt að horfa upp á þetta, hvernig þetta hefur breyst til hins betra. Að horfa upp á nemendur leika sér. Þetta eru börn og unglingar sem eru í körfubolta og borðtennis og tefla og spila og leika sér, sem er frábært,“ segir Andri Snær. „Maður sér núna til dæmis að það eru kærustupör aftur að myndast sem kyssast í sófanum, sem er stór hluti af því að vera á unglingastigi, þannig. En það var bara ekkert til staðar. Við vorum bara að átta okkur á því að þetta var bara ekki gott,“ segir hann. Íslenskir grunnskólanemar búa við mismunandi reglur um símanotkun á skólatíma. Sums staðar eru símar læstir inni í skápum strax að morgni. Einn kennari segir engan vafa um að börnunum líði betur án þeirra. Nemendur eru margir ánægðir með takmarkanir. Margir nemendur eru án síma jafnvel þegar það má Í Giljaskóla er svipaða sögu að segja en þar segir Aðalheiður Skúladóttir, deildarstjóri eldri stiga, að fólk sé ánægt með símafríið. Þar sé áhugavert að sjá að í vikulegum símatíma velji megnið af nemendum að vera áfram án þeirra. „Það er kannski einn þriðji sem er sannarlega í símanum í frímínútum á föstudögum, ég hugsa að það sé ekki meira,“ segir Aðalheiður. Breytingin hafi einnig verið krefjandi, það geti verið nemendum erfitt að slíta sig frá tækjunum. „Ef sími kemur oftar en þrisvar sinnum til stjórnenda að þá hérna þurfa foreldrar að sækja símann. Og reynslan okkar er sú að foreldrar vinna mjög vel með og þau eru ekkert að flýta sér eftir símanum,“ segir Aðalheiður. Engin ein regla í Reykjavík Í Reykjavík er það í höndum hvers grunnskóla að setja reglur um notkun farsíma innan veggja skólans. 72% grunnskóla í Reykjavík banna alfarið notkun einkasíma á skólatíma. Í Hagaskóla í Reykjavík tóku nýjar og stífari reglur um símanotkun gildi við upphaf skólaárs. Þar eru nemendur nú án símans allan skóladaginn og segjast kunna ágætlega við breytinguna. Íslenskir grunnskólanemar búa við mismunandi reglur um símanotkun á skólatíma. Sums staðar eru símar læstir inni í skápum strax að morgni. Einn kennari segir engan vafa um að börnunum líði betur án þeirra. Nemendur eru margir ánægðir með takmarkanir. „Ég tala miklu meira við vini mína og vinir mínir eru miklu minna í símanum,“ segir Birta Hall, nemandi við Hagaskóla. „Við erum bara að spjalla. Ég var í póker í morgun! Bara mjög gaman,“ segir hún.