Alþjóðlegar hjálparstofnanir og stjórnvöld í Afganistan biðla til alþjóðasamfélagsins um aðstoð í kjölfar jarðskjálfta sem varð í austurhluta landsins. Staðfest er að yfir 800 hafi farist í hamförunum en óttast er að fleiri finnist látnir. Um þrjú þúsund eru slasaðir og eyðileggingin er mikil. Létust meðan þau biðu eftir björgun Jarpskjálftinn, sem var sex að stærð, átti sér upptök í fjallahéraðinu Kunar, um 30 kílómetra norðaustur af borginni Jalalabad. Skjálftinn fannst allt frá Kabúl í vestri til Islamabad, höfuðborgar nágrannaríkisins Pakistan en Kunar-hérað er við landamæri þess. Kunar-hérað og nágrannahéraðið Nangarhar urðu verst úti. Heilu þorpin eru rústir einar og skriður hafa lokað þjóðveginum sem liggur að svæðunum þar sem eyðileggingin er mest. Stjórnvöld hafa brugðið á það ráð að flytja fólk burt með þyrlum. Hús á þessum slóðum eru ekki sterkbyggð, aðeins úr leir og timbri. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir hjálparsamtökunum World Vision að heilu þorpin í Kunar-héraði hafi verið eyðilögð, annaðhvort að hluta til eða að öllu leyti. Íbúar séu fastir undir rústum húsanna. Sumir hafi beðið klukkutímum saman eftir björgunarsveitum en dáið áður en þær hafi náð að bjarga þeim. Eitt fátækasta land í heimi Mannúðarástand er þegar slæmt í Afganistan, sem er eitt fátækasta land í heimi. Sameinuðu þjóðirnar segja meira en helming íbúa í landinu þurfa á mannúðaraðstoð til að lifa af. Filippo Grandi, yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sagði hvatti alþjóðasamfélagið til að styðja við hjálparstarfið. „Dauði og eyðilegging bætist ofan á aðrar áskoranir þjóðarinnar, þar á meðal þurrka og nauðungarflutninga milljóna Afgana frá nágrannalöndunum,“ skrifaði Grandi á samfélagsmiðilinn X. Fram kom í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneyti talibana að langflestir þeirra sem fórust í hamförunum hafi verið í Kunar-héraði. BBC hefur eftir hátt settum embættismanni talibana að björgunaraðgerðir snúi að því að finna eftirlifendur, ekki að því að fjarlægja lík úr rústum. Zafar Khan Gojar, íbúi í Nurgal í Kunar-héraði, var fluttur til Jalalabad eftir jarðskjálftann ásamt bróður sínum. Hann lýsir því við fjölmiðla hvernig veggir og þak á heimili hans hafi hrunið. „Sum börnin dóu og aðrir slösuðust.“ Muhammad Aziz, verkamaður í Nur Gul í Kunar-héraði, missti tíu fjölskyldumeðlimi, þar á meðal fimm börn. „Aumingja fólkið hér hefur misst allt. Það er dauði á hverju heimili og undir rústum hvers þaks eru fleiri látnir. Leirhúsin þurrkuðust út og eyðileggingin er alls staðar. Fólk er örvæntingarfullt og leitar hjálpar.“