Innviðaráðherra skoðar leiðir til að tryggja 48 daga strandveiði næsta sumar. Hann segir erfiðleikum bundið að velja hverjir fari á strandveiðar enda eigi þær að tryggja atvinnufrelsi. Mögulega ætti meiri þorskkvóti að fást inn í kerfið í skiptum fyrir aðrar tegundir. Nýrri ríkisstjórn tókst ekki að tryggja ákvæði í stjórnarsáttmála um að tryggja 48 daga strandveiði í sumar. Byggðapotturinn, sem í fara 5,3 prósent aflaheimilda, var því fluttur yfir til innviðaráðherra sem einnig fer með byggðamál. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra skoðar leiðir til að strandveiðikvótinn nýtist betur þeim sem hafa lifibrauð af smábátaútgerð. „Til dæmis með að skoða eignarhald á bátum, að það sé hundrað prósent eignarhald á bátum. Það er mikilvægt að þeir sem búa úti á landi, að þeir sem hafa lifibrauð af strandveiðum stóran hluta ársins, að kerfið þjóni þá þeim frekar en öðrum. En það á allt eftir að koma í ljós. Þetta er mjög erfitt ef við byggjum þetta á atvinnufrelsi, jafnræði og byggðafestu. Það þarf að fara saman,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra. Ríkustu útgerðirnar hafi fengið uppsjávarkvóta út byggðapottinum fyrir lítið 5,3 prósent af aflaheimildum fara í byggðapotta og það á líka við um uppsjávartegundir sem smábátar veiða ekki. Því hefur þurft að fara með talsverðan kvóta í loðnu, til dæmis á skiptimarkað, til að fá í staðinn þorskkvóta sem hentar smábátum. „Og þetta kerfi hefur borið mjög skarðan hlut frá borði þegar verið er að setja uppsjávarfisk á skiptimarkað vegna þess hve fá tonn eru að koma fyrir loðnukvóta til dæmis. Haustið 2021 voru það 34 þúsund tonn af loðnu og þá komu bara á skiptimarkaðnum þúsund tonn af þorski. Þannig að verðmæti hafa verið að fara úr 5,3% kerfinu til ríkustu útgerða í landinu. Þetta er félagslegt kerfi og það er mjög mikilvægt að við tryggjum að 5,3% kerfið sem er núna komið til mín sem byggðamálaráðherra, að það fái þorskígildið sem er úthlutað. Þetta er náttúrulega skiptimarkaður sem er algjör fákeppnismarkaður,“ segir Eyjólfur.