Sigurður Ingi um lítið fylgi: „Við tökum þessu sem hvatningu“

„Það er augljóst að við verðum að vera skýrari í okkar málflutningi og hvernig við birtumst þjóðinni. Ég er á þeirri skoðun að grundvallargildi og það sem við Framsókn höfum fram að færa sé algjörlega nauðsynlegt fyrir þjóðina,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við fréttastofu. Hann segir hins vegar erfitt fyrir miðjuflokka á Íslandi, og annars staðar, um þessar mundir þar sem öfgahyggja og hávaði hafi ráðið ríkjum. Fylgi Framsóknarflokksins mældist aðeins 4,5% í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og hefur ekki verið minna síðan frá því að mælingar Gallups hófust árið 1992. Ef gengið yrði til kosninga í dag fengi flokkurinn tvo kjördæmakjörna þingmenn, samkvæmt könnuninni. „Við tökum þessu sem hvatningu um að vera enn skýrari og berjast skýrar á næstu vikum og mánuðum,“ segir Sigurður Ingi um sögulega lítið fylgi Framsóknar. Ríkisstjórnin græði á öflugum forsætisráðherra Fylgi Samfylkingarinnar hefur vaxið jafnt og þétt síðan þingkosningar voru í nóvember. Þá fékk flokkurinn rúm 20% atkvæða en hann mælist nú með 34,6% fylgi. Fylgi Viðreisnar minnkar um tæplega 2% samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups og mælist 12,9%. Þá mælist Flokkur fólksins með 7,4% fylgi. „Það er náttúrulega augljóst að ríkisstjórnin eða sérstaklega eða fyrst og fremst Samfylkingin, því að hinir flokkarnir eru jú að tapa, er að græða verulega á því að vera með öflugan forsætisráðherra,“ segir Sigurður Ingi. Hann bendir á að umræðan um veiðigjöldin hafi hjálpað ríkisstjórninni sem sé þó enn að hampa málum sem eru frá síðasta kjörtímabili sem sínum eigin. Í því skyni nefnir hann breytingu á fyrirkomulagi greiðslna til öryrkja sem unnið hafði verið að í tíu ár og samþykkt var á í júní 2024. „Það sem ég held að við þurfum að gera er einfaldlega það að vera skýrari í okkar málflutningi og vera með einfaldari skilaboð en það sem við stöndum fyrir á enn erindi til þjóðarinnar. Við erum með öfluga grasrót og mikið af sveitarstjórnarfólki hringinn í kringum landið þó að við séum með lítinn þingflokk.“ Sigurður Ingi talar þó ekki með þeim hætti að tilefni sé til þess að endurskoða stöðu hans sem formaður Framsóknarflokksins. „Ég tek þetta alvarlega – þessi staða er mér hvatning til þess að berjast og vera skýrari í mínum málflutningi um grunngildi Framsóknar sem ég er sannfærður um að eiga enn talsvert erindi bæði til þjóðarinnar og reyndar um heim allan.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir ríkisstjórnina græða fylgi á því að vera með öflugan forsætisráðherra. Framsókn verði að vera skýrari í sínum málflutningi og með einfaldari skilaboð.