Þrjátíu starfsmönnum PCC BakkaSilicon hf. hefur verið sagt upp. Þetta segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Í júlímánuði var áttatíu starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp eftir að framleiðsla í kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík var stöðvuð. Eftir uppsagnir dagsins starfa aðeins átján manns hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið segir áframhaldandi óvissu á kísilmarkaði vera ástæðu þess að gripið sé til uppsagna. Fyrirtækið áfram staðráðið í að endurræsa reksturinn „Ákvörðunin var tekin í kjölfar frumniðurstöðu Evrópusambandsins um að ekki verði settir verndartollar á kísilmálm í Evrópu sem gerir markaðinn afar viðkvæman fyrir ódýrum kísilmálmi sem framleiddur er í Kína,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að PCC SE, eigandi PCC á Bakka, sé áfram staðráðið í að endurræsa rekstur kísilverksmiðjunnar á Bakka þegar markaðsaðstæður leyfa. Unnið sé að því að fyrirtækið verði tilbúið til þess. Bent er á að hjá fjármálaráðuneytinu liggi fyrir kæra félagsins vegna innflutnings til Íslands á undirverði. Þá hafi starfshópur fimm ráðuneyta unnið að tillögum að viðbrögðum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp í atvinnumálum á Húsavík. „Áfram verður unnið með og þrýst á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að bregðast við þeirri þungu stöðu sem upp er komin og hefur mikil áhrif á samfélagið á Húsavík,“ segir að lokum í tilkynningunni.