Amnesty International segist hafa undir höndum gögn sem sýni fram á að embættismenn og vígasveitir á vegum sýrlenskra stjórnvalda hafi tekið af lífi 46 manns úr minnihlutahóp Drúsa í júlí. Ofbeldisalda fór yfir suðurhluta Sýrlands í júlí þegar upp úr sauð milli vopnaðra hópa Drúsa annars vegar og Bedúína hins vegar. Talið er að rúmlega 2.000 manns hafi verið drepin, þar á meðal 789 almennir borgarar úr hópi Drúsa sem voru teknir af lífi án dóms og laga. Stjórnin í Damaskus segir hersveitir sínar hafa gripið inn til þess að stöðva ofbeldið en fjöldi sjónarvotta, blaðamanna og eftirlitsstofnana segir stjórnarliða hafa tekið afstöðu með Bedúínum og gert árásir á Drúsa. „Þessar aftökur stjórnarinnar og hersveita á vegum hennar fóru fram á almenningstorgi, í íbúðum, skóla, á sjúkrahúsi og í viðhafnarsal,“ sagði Amnesty í tilkynningu. Samtökin sögðust hafa undir höndum myndbönd af vopnuðum mönnum í einkennisbúningum hersins og öryggisstofnana að taka óvopnað fólk af lífi. Amnesty greindi frá því að fjórir menn hið minnsta sem sjást í myndböndunum hafi verið með svört barmmerki sem eru iðulega bendluð við Íslamska ríkið. Íslamska ríkið lýsti ekki yfir ábyrgð á neinum árásum í Suweida. Þrír þeirra sáust í slagtogi við öryggisstarfsmenn stjórnarinnar. „Þegar öryggis- eða hersveitir drepa fólk vísvitandi og ólöglega telst það aftaka án dóms og laga,“ sagði Diana Semaa, sérfræðingur Amnesty í málefnum Sýrlands. Hún hvatti stjórnvöld til að hefja sjálfstæða og gegnsæja rannsókn á aftökunum og draga gerendurna til ábyrgðar.