Eina tryggingin fyrir langtíma frið og öryggi í Evrópu er lýðræðislegt Rússland

Vladimir Kara-Murza sem var pólitískur fangi í Rússlandi en var frelsaður í fangaskiptum í fyrra lýsir skoðanakúgunum í heimalandi sínu og afar erfiðum aðbúnaði í fangelsi. Kara-Murza hefur lifað af tvær eitranir og var dæmdur til 25 ára fangelsisvistar í öryggisfangelsi í Síberíu, þar sem hann sætti einangrun í 11 mánuði. Það er þyngsti dómur sem pólitískur fangi hefur fengið í Rússlandi frá dögum Stalíns. Hann fékk frelsi í fyrra í fangaskiptum milli Bandaríkjanna, Þýskalands og Rússlands. Kara-Murza talaði á friðarráðstefnu í Veröld í síðustu viku og var gestur Valgeirs Arnar Ragnarssonar í Silfrinu í kvöld. Vladimir Kara-Murza sem var látinn laus úr öryggisfangelsi í Síberíu í fangaskiptum í fyrra vill vinna gegn áróðursvél Rússlandsforseta. Hann segir lýðræði í Rússlandi nauðsynlegt til að tryggja frið í Evrópu. Í viðtalinu sagðist Kara-Murza þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að sýna heiminum hina hliðina á Rússlandi. Ekki því Rússlandi sem áróðursvél Pútíns hefur búið til, hina opinberu ásjónu, heldur Rússlandi þar sem yfirvöld myrði pólitíska andstæðinga sína, fangelsi þúsundir ríkisborgara sína fyrir að segja sannleikanna og heyr stórfelldasta stríð á evrópskri grundu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. En Kara-Murza segir líka að sú staðreynd að í Rússlandi séu fleiri pólitískir fangar nú en voru í öllum Sovétríkjunum sýni ekki aðeins fram á kúgunina sem eigi sér stað, heldur sé það líka vísbending um að fjöldi fólks í Rússlandi sé óánægður með ástandið og láti í sér heyra þó svo að það kosti það frelsið. Boðskapur Kara-Murza á friðarráðstefnunni var ákall um lýðræðislegt Rússlandþ „Besta tryggingin og sú eina fyrir langtíma frið og öryggi í Evrópu er lýðræðislegt Rússland, sem virðir réttindi borgara sinna og fer að alþjóðlegum viðmiðum um siðmenningu og framkomu,“ segir Kara-Murza.