Ísland geti nýtt sér góð samskipti við Kína til að hafa áhrif

Helgi Steinar Guðmundsson, blaðamaður og alþjóðastjórnmálafræðingur, segir skoðun Kínverja á Íslandi jákvæða. Hann hefur varið miklum tíma í Kína og verið þar búsettur og segist ekki geta talið nein tilvik þar sem stjórnmálamenn eða almennir íbúar hafi eitthvað neikvætt að segja um Ísland. „Þetta er mun sjaldgæfara en við höldum, það eru þjóðir sem hafa komist upp á kant við Kína og jafnvel þjóðir sem sögulega séð hafa ekki verið óvinir,“ segir Helgi. Kína skrifaði undir fríverslunarsamning við Ísland árið 2013. Helgi segir að þeir hafi gert það til að sýna fram á að þeir gætu stundað frjáls viðskipti við vestræna þjóð. Hann segir Íslendinga í góðri stöðu og Kínverjar vilji styrkja hana enn frekar. Helgi segir að samskiptin við Kína snúast mikið um sjávarútveg, skipasmíði, iðnað og útflutning en nú hafi komið inn græn orka sem Kínverjar sækjast í, hvort sem um er að ræða sólarorku eða jarðvarma þar sem Íslendingar séu sterkir. „Það sem ég hef verið að sjá á undanförnum árum er þessi aðkoma sprotafyrirtækja og minni fyrirtækja og það sést greinilega á innflutningsráðstefnunni í Shanghai sem verður eftir tvær vikur.“ Hann segir að íslensk fyrirtæki hafi verið með bása og samhljómur meðal allra gesta sem heimsóttu þessa bása hafi verið sá að allt sem er íslenskt gefi hugmyndina um að allt sé hreint og tært og að það ættu Íslendingar að einblína á. Aðspurður hvort Ísland geti gert eitthvað til að hafa jákvæð áhrif á Kína svaraði Helgi að ef við viðhöldum góðum samskiptum og góðum efnahagslegum tengslum þá myndi hann ekki efast um að við værum í góðri stöðu til þess að hafa jákvæð áhrif á samstarfið og stjórnarfarið þar í landi. Alþjóðastjórnmálafræðingur segir Kínverja líta Ísland jákvæðum augum. Hann segir Ísland geta nýtt sér góð samskipti við Kína til að hafa áhrif.