Andry Rajoelina, forseti Madagaskar, er flúinn úr landi í skugga fjöldamótmæla. Rajoelina staðfesti í ávarpi á Facebook í beinni útsendingu að hann hefði komið sér á öruggan stað. Orðrómar höfðu verið uppi daginn áður um að forsetinn hefði flogið úr landi í franskri flugvél. Í ávarpinu biðlaði Rajoelina til landsmanna að virða stjórnarskrá landsins. Hann fullyrti jafnframt að herinn hefði reynt að bola honum á völdum og koma honum fyrir kattarnef þann 25. september, þegar mótmælin hófust. Hann hafi engu að síður snúið aftur til landsins frá New York, þar sem hann sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Mótmæli hafa skekið Madagaskar í margar vikur. Líkt og mótmæli í mörgum öðrum löndum um þessar mundir eru þau leidd af ungmennum úr Z-kynslóðinni. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa að minnsta kosti 22 mótmælendur verið drepnir í mótmælunum. Þáttaskil urðu á laugardaginn þegar hópur hermanna gekk til liðs við mótmælendurna og hvatti aðra hermenn til að óhlýðnast skipunum um að skjóta á þá. Rajoelina lýsti þessu sem valdaránstilraun. Stuttu eftir þessi ummæli forsetans lýsti háttsett deild innan madagaska hersins, CAPSAT, því yfir að hún hefði tekið yfir stjórn hersins. Hún hafði áður lýst því yfir að hún myndi ekki skjóta á mótmælendur. Franski ríkismiðillinn RFI sagðist hafa heimildir fyrir því að Rajoelina hefði flogið úr landi með franskri herflugvél á sunnudaginn eftir samkomulag við Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Hann hafi flogið til frönsku eyjunnar Réunion á Indlandshafi en ekki sé vitað hvar hann er nú. Emmanuel Macron Frakklandsforseti neitaði að staðfesta við fjölmiðla hvort Frakkar hefðu forðað Rajoelina úr landi.