Ákæra tvo Rússa fyrir njósnir

Saksóknarar í Póllandi ákærðu í gær rússnesk hjón fyrir njósnir í þágu Rússlands. Hjónin, sem njóta nafnleyndar samkvæmt pólskum lögum en eru kölluð Igor R. og Irina R. í tilkynningu um ákæruna, voru handtekin í júlí í fyrra. Í tilkynningu um ákæruna kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að Igor R. hafi unnið með rússnesku leyniþjónustunni FSB við að njósna um rússneska stjórnarandstæðinga sem búsettir eru í Póllandi. Irina R. lét upplýsingarnar ganga til fulltrúa FSB á rafrænu geymsludrifi. Auk njósnaákærunnar er Igor R. ákærður fyrir að senda böggul með sprengiefni í pósti ásamt einum Rússa og tveimur Úkraínumönnum í júlí 2024. „Böggullinn innihélt sprengitæki og -efni, nánar tiltekið nítróglyserín, og jafnframt falin rafræn kveikitæki og ræsibúnað af því tagi sem herir nota,“ sögðu saksóknararnir í yfirlýsingu. „Í tengslum við sendingu þessa bögguls var Igor R. ákærður fyrir að stofna lífi manna, heilsu eða eignum í hættu á stórfelldan hátt með sprengingu sprengitækja.“ Ekki var tekið fram í tilkynningunni hver hefði átt að taka við bögglinum en fram kom að sprengjan hefði getað valdið verulegu tjóni á innviðum ef hún hefði sprungið. Hjónin gætu átt yfir sér allt að 15 ára fangelsisdóm ef þau verða sakfelld. Pólverjar hafa ítrekað sakað Rússa um njósnir og skemmdarverkastarfsemi á pólskri grundu undanfarin ár. Þeir segja þetta lið í fjölþáttahernaði Rússa gegn nágrannaríkjum sínum, sem Rússar þvertaka fyrir.