Halla Tómasdóttir forseti Íslands átti um hálftíma langan fund í morgun með Xi Jingping, forseta Kína, þar sem farið var yfir helstu áskoranir í alþjóðamálum, auk þess sem samskipti ríkjanna tveggja voru rædd. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kom Halla afstöðu íslenskra stjórnvalda til dæmis hvað varðar innrásarstríð Rússa í Úkraínu skýrt á framfæri, en meðal vestrænna ríkja hafa Kínverjar verið ítrekað verið gagnrýndir fyrir að veita Rússum stuðning undanfarin misseri. Mannréttindi voru einnig til umræðu á þessum fundi og greint frá afstöðu íslenskra stjórnvalda í þeim málum. Þorbjörg Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sat þennan fund með forseta, auk sendiherra Íslands í Kína og annarra íslenskra embættismanna. Staðan á Gaza var einnig rædd, og ítrekuð var sú afstaða íslenskra stjórnvalda að friður kæmist á sem fyrst í samræmi við tveggja ríkja lausnina um sjálfstæða Palestínu. Bæði Kína og Ísland hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu; Kína var reyndar eitt af fyrstu ríkjum heims til að gera það, árið 1988. Einnig var rætt um jafnréttismál og það vakti athygli að í íslenska hópnum á fundinum voru sex konur og einn karlmaður, en hinum megin við borðið voru átta karlmenn og ein kona. Nánar verður fjallað um fund forsetanna í fréttum RÚV í dag og í kvöld og rætt við Höllu Tómasdóttur forseta.