Hvessir norðanlands eftir hádegi

Það blæs nokkuð um landið norðanvert eftir hádegi en mun hægari vindur verður sunnan til. Á morgun dregur úr vindi. Veðurspáin er svohljóðandi: Sunnan og suðvestan fimm til þrettán metrar á sekúndu en tíu til átján norðanlands eftir hádegi. Þokusúld eða rigning með köflum, en lengst af þurrt og bjart á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti átta til sextán stig, hlýjast fyrir austan. Vestan átta til fimmtán metrar á sekúndu á morgun, en fimm til tíu síðdegis. Skýjað og dálítil væta, en bjart með köflum suðaustan- og austanlands. Hiti sex til fjórtán stig, mildast suðaustantil.