Neyðaraðstoð berst hægt inn á Gaza eftir að vopnahléð tók gildi þar en búist er við að flytja þurfi um 600 vörubílsfarma inn á Gaza á hverjum degi með allra helstu nauðþurftum fyrir íbúa. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Unicef á Íslandi í Silfrinu. Þar ræddu hún, Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV og Magnea Marínósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur um það sem koma skal á Gaza eftir að vopnahléð tók gildi. Valgeir Örn Ragnarsson stýrði þættinum. Birna segir að koma þurfi tveimur milljónum til hjálpar á aflokuðu svæði. Þetta sé fólk sem hafi verið svipt öllum innviðum sem tryggja möguleika lífs og mannvirðingar. Hún sagði yfirmann Unicef hafa kallað vefkefnin framundan stærstu mannúðaraðgerð mannkynssögunnar. „Það þarf að byggja allt upp, alla innviði, vatnsinnviði, allir spítalar og skólar eru skemmdir eða ónýtir. En fyrsta lagi að stöðva hungursneyðina og koma í veg fyrir að börn og feiri íbúar á Gaza deyi úr hungri,“ segir Birna. Birna sagði flutning hjálpargagna inn á Gaza eftir að vopnahléð hófst ekki fara hratt af stað. „Miðað við það að matið er 600 trukkar á dag, helst inn frá mörgum punktum inn á svæðið, þá höfum við verið að sjá tugi bíla koma inn á svæðið. Það fóru engir bílar í dag, það var lokað út af fanga- og gíslaskiptum milli Ísraels og Hamas, og á morgun er helgidagur svo líklega verður lokað þá líka.“ Birna sagði áætlaða fjárþörf bara hjá Unicef fyrir næstu 30 daga vera 22 milljarða króna. Unicef á Íslandi hefur síðan sent frá sér tilkynningu þar sem segir að uppfært mat á fjárþörfinni séu 22 milljarðar króna næstu mánuðina. Hallgrímur sagði umfang eyðileggingarinnar á Gaza vafalaust ekki vera orðið ljóst enn þar sem fjölmiðlum hefði ekki verið hleypt þangað á stríðstímanum. Þó kunni að taka mörg ár áður en öll kurl verði komin til grafar. Magnea varaði við að vopnahléð kynni að fara sömu leið og vopnahléð sem samið var um í janúar. „Það var auðvelt í sjálfu sér að framkvæma fyrsta áfangann en seinni áfanginn er mun erfiðari út af því að hann gengur miklu meira út á að semja um hvað tekur við. Það er eitt að stöðva stríðið og það þjóðarmorð sem hefur verið í gangi og fara að vinna í að bæta skaðann fyrir alla þá eyðileggingu sem hefur átt sér stað, og annað að ná friðnum.“ Magnea benti á að Palestínumenn ættu ekki beina aðild að samkomulaginu og þótt gert sé ráð fyrir því að Hamas afvopnist og láti af völdum hafi samtökin ekki fallist á slíkt. Hún sagðist sumpart hafa glatað bjartsýninni yfir friðaráætluninni eftir að hafa hlustað á ræður Donalds Trump og Benjamíns Netanjahú við Knesset í dag. „Þessar forsendur friðar eru ekki neitt á forsendum Palestínumanna. Þeir eru ennþá viðfang, eins og þeir hafa alltaf verið, alveg frá Balfour-yfirlýsingunni frá 1917.“ Horfa má á þáttinn í spilaranum hér að neðan. Fréttin var uppfærð 14. október með nýjum upplýsingum frá Unicef Rætt var um ástandið á Gaza-ströndinni í Silfrinu í kvöld í ljósi vopnahléssamkomulagsins sem gert var í síðustu viku.