Grikkir mótmæla þrettán tíma vinnudegi

Um tíu þúsund manns komu saman í Aþenu og Þessalóníku í morgun til að krefjast þess að ríkisstjórnin falli frá áformum um að heimila allt að þrettán klukkustunda langa vinnudaga. Starfsmenn Aþenu-borgar lögðu niður störf sem hafði mikil áhrif á almenningssamgöngur í borginni. Atkvæðagreiðsla um frumvarpið verður í gríska þinginu á morgun. Gríska stjórnin segir þetta ekki fela í sér miklar breytingar því það sé aðeins verið að heimila lengri vinnudag. En stjórnarandstæðingur og verkalýðsfélög hafa gagnrýnt að neiti starfsmenn því að vinna lengur geti þeir átt hættu á því að missa vinnuna. Sum verkalýðsfélaganna hafa gengið lengra og kallað þetta nútímaþrælahald. Hefðbundinn vinnudagur í Grikklandi er átta klukkustundir og heimilt að greiða yfirvinnu þegar unnið er lengur. Ríkisstjórn Kyriakos Mitsotakis hefur unnið að því að breyta vinnulöggjöfinni um nokkurt skeið. Hún hefur þegar lögfest sex daga vinnuviku og aukið sveigjanleika fyrir atvinnurekendur að kalla fólk til vinnu á álagstímum, til dæmis yfir sumartímann í ferðaþjónustunni.