Þegar Play lagðist á hliðina í lok september óskaði Spegillinn eftir þeim gögnum sem kynnu að hafa verið útbúin í tengslum við fjárhagsvandræði flugfélagsins og gjaldþrot frá forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, atvinnuvegaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu. Höfðu áhyggjur af stöðu Play Ítrekað hafði verið fjallað um fjárhagsvandræði Play í fjölmiðlum en skyndilegt fall kom flestum í opna skjöldu. Nærri tuttugu þúsund farþegar urðu fyrir skakkaföllum þegar ferðum félagsins var skyndilega hætt og sumir urðu að reiða fram háar upphæðir til að komast heim. Engin gögn fundust í forsætisráðuneytinu. Frá fjármálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að þau gögn sem hefðu verið útbúin hefðu verið lögð fyrir ríkisstjórnina; annars vegar í febrúar á síðasta ári og hins vegar í október á þessu ári. Slík gögn eru undanþegin upplýsingalögum. Atvinnuvegaráðuneytið sagði í svari sínu að innan ráðuneytisins hefði verið unnið að öflun gagna og upplýsinga, meðal annars um stöðu þeirra ferðaskrifstofa sem orðið hefðu fyrir skakkaföllum. Þetta væru vinnugögn og því undanþegin upplýsingarétti. Innviðaráðuneytið gat afhent nokkra tölvupósta sem bera þess flestir merki að síðasta eina og hálfa árið hafi ítrekaðar áhyggjur af stöðu Play vaknað innan stjórnkerfisins. Sagði Play allt annað en WOW „Ég held að það sé mikilvægt að skapa ekki óþarfa hræðslu í kringum félagið,“ skrifar lögfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra í innviðaráðuneytinu í febrúar á síðasta ári í tölvupósti til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem þá var ráðherra. Afrit af tölvupóstinum fengu bæði aðstoðarmenn og ráðuneytisstjóri. Ástæðan voru áhyggjur af fjárhagslegri stöðu flugfélagsins; endurskoðandi Play hafði sett fram ábendingu í ársreikningi að vafi væri á rekstarhæfi félagsins og fram hafði komið í fjölmiðlum að félagið hygðist sækja sér fjóra milljarða í nýtt hlutafé til að styrkja lausafjárstöðuna. Lögfræðingurinn sagðist í tölvupóstinum hafa átt samtöl við Samgöngustofu um flugfélagið og lagði áherslu á að þetta horfði allt öðruvísi við en staða WOW á sínum tíma; Play væri skráð á markað og sinnti upplýsingagjöf í samræmi við það. Mölturekstur Play kom Samgöngustofu á óvart Í júlí kviknaði aftur á viðvörunarljósum þegar fréttir birtust um versnandi stöðu Play; hlutabréf höfðu tekið dýfu eftir að tilkynnt var að afkoma ársins yrði verri en lagt hafði verið upp með. Í tölvupósti til Samgöngustofu minnti ráðuneytið á að það hefði fyrr um árið verið í samskiptum út af sama flugfélagi og þá hefði Samgöngustofu ekki þótt ástæða til að auka eftirlit með fjárhagsstöðu félagsins. Nú vildi ráðuneytið vita hvort ástæða væri til þess. Forstjóri Samgöngustofu sagði í svari til ráðuneytisins að nýbúið væri að semja við KPMG um eftirlit með flugrekendum; beðið væri eftir greiningu þeirra á gögnum frá Play, ferli sem hefði verið komið í gang áður en fréttirnar af fjárhagsstöðu Play birtust. Í október fór ráðuneytið aftur að forvitnast um eftirlit með Play - þá virtist það hafa komið Samgöngustofu á óvart að Play ætlaði sér að sækja um flugrekstrarleyfi á Möltu og draga úr Ameríkuflugi. „Flugrekendur eiga að upplýsa stofnunina um breytta stöðu,“ skrifar forstjóri stofnunarinnar til innviðaráðuneytisins. Fundað yrði með Play að lokinni hluthafakynningu en ekki þótti ástæða til frekari aðgerða eða eftirlits. Forstjóri Samgöngustofu sagði stöðuna í febrúar viðkvæma Daginn eftir að Play birti uppgjör í febrúar á þessu ári, þar sem fram kom að það hefði tapað 9,4 milljörðum árið 2024, sendi Ingilín Kristmannsdóttir, ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins, tölvupóst á forstjóra Samgöngustofu og óskaði eftir upplýsingum um stöðu mála. Forstjóri Samgöngustofu sagði stöðuna viðkvæma og að ætlunin væri að taka ákvörðun um næstu skref þegar minnisblað KPMG, sem beðið væri eftir, lægi fyrir. Ingilín bað forstjórann að halda ráðuneytinu upplýstu því það gætti ákveðins óróa og fjármálaráðuneytið væri til að mynda að spyrjast fyrir. „Við treystum því að Samgöngustofa sé með allt á hreinu,“ skrifar ráðuneytisstjórinn. Í framhaldinu var boðað til fundar þar sem Samgöngustofa var beðin um að upplýsa um stöðu á fjárhagslegu eftirliti með Play. Framkvæmdastjóri flugsviðs hjá Samgöngustofu lagði til að beðið yrði eftir minnisblaðinu frá KPMG, Play væri að fá maltneskt flugrekstarleyfi, líklega í lok mars, og ætlun félagsins væri að færa þrjár til fjórar vélar af íslenska leyfinu á það maltneska. Samgöngustofa tók upp ítarlegra eftirlit með Play í júlí Samgöngustofa og ráðuneytið funduðu svo í lok febrúar þar sem Samgöngustofa upplýsti að Play hefði fjárhagslegt bolmagn til að standa við nauðsynlegar kröfur, ekki væri þörf á ítarlegu fjárhagseftirliti en rétt væri samt að hafa það oftar en tvisvar á ári. Í júlí upplýsti svo Samgöngustofa ráðuneytið um að ítarlegra mat á fjárhag Play hefði verið hafið; þrátt fyrir að eftirlit með flugöryggi hefði ekki gefið tilefni til sérstakra viðbragða teldi stofnunin rétt að auka eftirlitið enn frekar á þessum tímapunkti, eftir að Play tilkynnti um þær fyrirætlanir sínar að leggja inn flugrekstrarleyfi sitt á Íslandi. „Gott að heyra,“ svarar ráðuneytisstjóri. Mánuði síðar var boðað til fundar í ráðuneytinu - þar var óskað eftir upplýsingum um framkvæmd matsins, hvert mat stofnunarinnar væri á rekstarhæfni Play og hvort afstaða Samgöngustofu til þess að ekki væri ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða væri óbreytt frá því að ítarlegt mat á fjárhag félagsins hófst. Taldi félagið geta lifað út árið Innviðaráðuneytið segir í svari til Spegilsins að á fundinum, sem haldinn var tuttugasta ágúst, hafi fjárhagseftirlit Samgöngustofu verið kynnt munnlega og að niðurstaðan hafi verið sú að flugfélagið hefði fjárhagslegt bolmagn til að reka flugstarfsemi á öruggan máta. Daginn sem Play varð gjaldþrota, þann 29. september, upplýsti Samgöngustofa síðan ráðuneytið að hún hefði fengið viðbótarupplýsingar um skuldabréfaútboð eigenda félagsins þann 3. september; í ljósi þeirra upplýsinga hefði það verið mat Samgöngustofu að fjárhagsstaða flugfélagsins væri fullnægjandi út árið.