Bandaríski söngvarinn og Grammy-verðlaunahafinn D'Angelo er látinn. Hann var 51 árs og lést eftir baráttu við briskrabbamein. Þakklát fyrir arfleiðina sem hann skildi eftir sig Í tilkynningu frá fjölskyldu tónlistarmannsins segir að ljós í lífi þeirra hafi slokknað við andlát D'Angelo, sem hét fullu nafni Michael Eugene Archer. „Við erum sorgmædd yfir því að hann skilji aðeins eftir sig dýrmætar minningar með fjölskyldu sinni en á sama tíma þakklát fyrir arfleiðina sem hjartnæm tónlist hans skilur eftir sig.“ Fjölskyldan hvetur aðdáendur til að syrgja söngvarann en á sama tíma fagna tónlistinni sem hann skilur eftir sig. Lykilmaður í að skapa nýja tónlistartegund D'Angelo gaf út þrjár plötur á ferli sínum og hlaut fern Grammy-verðlaun. Hann var frumkvöðull í því að skapa ný-sálartónlist (e. neo-soul). Hann þróaði með sér einkennandi hljóð með plötunni Brown Sugar. Þar fléttaði hann saman klassíska tóna rytmablús við hip-hop áhrif og djass. D'Angelo vann mikið með trommaranum Ahmir „Questlove“ Thompson, sem er í hljómsveitinni The Roots og tónlistarstjóri spjallþáttarins The Tonight Show með Jimmy Fallon. Þeir gerðu tvær seinni plötur D'Angelo saman og þróuðu ný-sálarhljóðið áfram. Platan D'Angelo, „Voodoo“, sem kom út árið 2000, er talin hornsteinn í rytmablús nútímans. Platan hefur haft mikil áhrif á tónlistarstefnuna síðustu áratugi. Tónlistarmyndbandið við aðalsmáskífu plötunnar „Untitled (How Does It Feel)“ vakti mikla athygli. Það þótti mjög kynþokkkafullt og gerði hann að kyntákni. Það var hlutverk sem hann vildi ekki og beinlínis forðaðist. Þrátt fyrir að „Voodoo“ hafi slegið í gegn þá hvarf tónlistarmaðurinn af sjónarsviðinu næsta áratuginn. Hann gaf út síðustu plötu sína 2014.