Yfirfara þúsundir lána eftir vaxtadóm Hæstaréttar

Bankastjóri Íslandsbanka segir að vegna nýfallins Hæstaréttardóms þurfi bankinn að endurreikna öll óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, sem voru tekin eftir gildistöku laga 1. apríl 2017. Ekki sé þó þar með sagt að lánin breytist við það. Hæstiréttur úrskurðaði í dag að skilmálar bankans á óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum væru ólöglegir. Nánar tiltekið mætti bankinn ekki nota önnur viðmið en stýrivexti við breytingar á vaxtakjörum. Hingað til hefur bankinn jafnframt stuðst við önnur viðmið, eins og eigin rekstrarkostnað, skattaumhverfi og fleira. Hefur áhrif ef vextir hækkuðu umfram stýrivexti „Hjá okkur hefur þetta áhrif á þá lántaka þar sem vextirnir hafa hækkað meira en stýrivextir,“ segir Jón Guðni Ómarsson bankastjóri. Það á einkum við um lán sem voru tekin fyrir Covid, en í Covid lækkuðu stýrivextir hratt en vextir bankanna ekki jafnhratt. Jón Guðni bendir á að í tilviki fólksins sem höfðaði málið gegn bankanum hafi vextir þeirra hækkað minna en stýrivextir. Fyrir vikið hafnaði Hæstiréttur bótakröfu þeirra. Má þá skilja sem svo að bankinn þurfi að endurreikna öll lán og athuga hvort fólk hafi tapað á þessu eða ekki? „Nákvæmlega, það er það sem við þurfum að skoða núna,“ segir Jón Guðni. Hann á von á að nokkuð góð yfirsýn ætti að fást á næstu dögum. Áhrifin minni en bankinn óttaðist Í áhættumati frá því í sumar kom fram að bankinn gerði ráð fyrir kostnaði upp á 21 milljarð króna ef hann lyti í lægra haldi. „Það er alveg ljóst að kostnaðurinn er miklum mun minni,“ segir Jón Guðni. Til marks um það hækkuðu hlutabréf í bankanum um 3% í viðskiptum í dag. Jón Guðni segir gott að komin sé niðurstaða í málið. Hann telur ekki að í þessu felist áfellisdómur yfir bankanum. „Það var greinilega óljóst hvernig ætti að meðhöndla þessi lán. Það er gott að það sé orðið skýrt.“