Mikill fjöldi mála dagar uppi á Alþingi

Breyta þarf stjórnarskránni ef hrófla á við ákvæðum um líftíma þingmála segir forseti Alþingis, og það hafi ekki reynst létt verk. Öll mál sem ekki ná afgreiðslu að vori á Alþingi þarf að leggja fram aftur og hefja þinglega meðferð á ný frá byrjun. Víðast hvar á öðrum Norðurlöndum er fyrirkomulagið einfaldara. Ræðutími þingmála stundum ótakmarkaður Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis leggur áherslu á að ef breyta eigi þessu kerfi þá þurfi að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og það hafi ekki gengið vel síðustu árin að breyta henni. Lagafrumvörp sem eru lögð fram á Alþingi fara í gegnum þrjár umræður. Í fyrstu umræðu er ræðutími takmarkaður, í annarri umræðu er hann nánast ótakmarkaður og svo takmarkaður í þriðju. Frumvörp fara til fagnefndar þingsins að lokinni nánast hverri umræðu, leitað er eftir umsögnum og þær sendar inn til þingsins. Lokaatkvæðagreiðsla um afgreiðslu málsins er svo að lokinni þriðju umræðu. Þingsályktunartillögur eru ræddar við tvær umræður. Ræðutími er takmarkaður við fyrri umræðu en nánast ótakmarkaður í síðari - eins og við aðra umræðu lagafrumvarpa. Þær ganga líka til nefnda og leitað er umsagna. Gríðarlegur fjöldi tillagna er lagður fram ár eftir ár eftir ár. Bryndís Haraldsdóttir fyrsti varaforseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að þegar hún hafi fyrst komið á þing hafi henni fundist þetta kerfi mjög ankannalegt og þessu þyrftir nauðsynlega að breyta. Hún hafi hins vegar lært að þessu kerfi fylgi líka kostir, þingmálin fái tækifæri til að þroskast og taka breytingum. Tökum sem dæmi bókun 35 Frumvarpið um bókun 35 var fyrst lagt fram í mars 2023 og málið dagaði uppi í nefnd í apríl sama ár. Málið var aftur lagt fram í febrúar á þessu ári og þegar þingfundum var frestað í sumar hafði það verið rætt í 50 klukkustundir án afgreiðslu. Það var lagt aftur fram núna í september, fyrstu umræðu er lokið og nú er málið komið á ný til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. Einfaldara kerfi víðast annars staðar á Norðurlöndunum Í Danmörku er svipað kerfi og hér á landi, þingmál falla niður við lok hvers löggjafarþings. Í Noregi er almenna reglan sú að þingmál geti lifað út kjörtímabilið. Í Svíþjóð verður að afgreiða þingmál á því kjörtímabili sem það er lagt fram á og í Finnlandi getur meðferð þingmáls haldið áfram á næsta löggjafarþingi. Breyta þarf stjórnarskránni ef hrófla á við ákvæðum um líftíma þingmála segir forseti Alþingis, og það hafi ekki reynst létt verk. Öll mál sem ekki ná afgreiðslu að vori á Alþingi þarf að leggja fram aftur og hefja þinglega meðferð á ný frá byrjun. Skoða verði út í ystu æsar ef það á að breyta Forseti Alþingis segir meðferð mála á Alþingi skapa ákveðna tvítekningu og útilokar ekki breytingar. „En áður en að það gerist þá verðum við öll að skilja hvers vegna hvert frumvarp þarf þrjár umræður og hvers vegna þetta hefur verið svona og það kann að virðast við fyrstu sýn að það ætti að breyta þessu en það þarf hins vegar að skoða það út í æsar,“ segir Þórunn. Bryndís leggur áherslu á vandvirkni þingsins. „Heilt yfir þá sé ég marga kosti við þetta líka og ég er eiginlega komin á þá skoðun að skilvirkni á ekki endilega að vera eitthvert lykilatriði þegar við erum að fjalla um þingstörfin það á miklu frekar að vera vandvirkni og svo megum við heldur ekki gleyma því að þingið er líka málstofa,“ segir Bryndís Haraldsdóttir.