Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi allra flokka í Reykjavík samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í september og október. Flokkurinn mældist með 32,9 prósenta fylgi og myndi fá 9 borgarfulltrúa. Til samanburðar fékk flokkurinn 24,5 prósent atkvæða og 6 borgarfulltrúa í síðustu borgarstjórnarkosningum 2022. Samfylkingin mældist með næstmesta fylgið í könnuninni eða 28,3 prósent og myndi fá 7 fulltrúa í borgarstjórn. Það er meira en flokkurinn fékk í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þá hlaut Samfylkingin 20,3 prósent atkvæða og 5 fulltrúa. Vinstri græn og Píratar myndu missa borgarfulltrúa Það mælist ekki marktækur munur á fylgi flokkanna milli kannana en hins vegar mælist marktækur munur á fylgi Pírata, Framsóknarflokksins, Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins. Samkvæmt könnuninni næði meirihluti Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna aðeins 10 borgarfulltrúum og er því fallinn. Vinstri grænir myndu missa sinn borgarfulltrúa samkvæmt könnuninni og Sósíalistaflokkurinn myndi missa annan af tveimur fulltrúum.