„Héðan í frá getur lántakandi séð hvort að vextirnir sem hann er að borga séu rétt saman settir, hingað til hefur fólk þurft að treysta bankanum sínum fyrir því að hann sé svona eins og ‚bonus pater‘ að skenkja þér þína vexti“, segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í Kastljósi kvöldsins. Hæstiréttur úrskurðaði í svokölluðu vaxtamáli Neytendasamtakanna og VR gegn bönkunum í dag. Í málinu var deilt um hvort ákveðnir skilmálar á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum væru lögmætir eða ekki. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að skilmálar Íslandsbanka væru ólöglegir. Bankinn mætti ekki miða við annað en stýrivexti þegar vöxtunum væri breytt. Málið er eitt af fimm sambærilegum málum sem fara fyrir réttinn. Breki segir málið vera fullnaðarsigur fyrir neytendur. Hann segir þetta verða til þess að hér eftir geti lántakendur raunverulega borið vexti og vaxtakjör saman milli banka. Samkvæmt eldri skilmálum, sem hafa nú verið dæmdir ólögmætir, var bönkum heimilt að hækka vexti sína til dæmis vegna breytinga á rekstrarkostnaði eða ávöxtunarkröfum bankans. Breki segir það nú vera kýrskýrt að þetta sé ekki leyfilegt. Segir dóminn ekki vera áfellisdóm Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir dóminn skýran og fagnar því að loksins sé komin niðurstaða í málið. Í niðurstöðu hæstaréttar kemur fram að bankinn megi ekki nota önnur viðmið en stýrivexti við breytingar á vaxtakjörum. Jón segir að Íslandsbanki fari nú í að skoða óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og hvort einhver dæmi séu um að vextir á þeim hafi hækkað meira en stýrivextir. Jón segir dóminn ekki vera áfellisdóm og telur ekki að þessi niðurstaða verði til þess að óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum hverfi úr sögunni. Hann segir þetta lánaform hafa verið algengt á Íslandi í langan tíma, nú þurfi bankinn að skoða hvaða áhrif þetta hafi á þau og hvernig best sé að bjóða lánin fram. Breki fagnar frumkvæði Íslandsbanka um að endurreikna lánin. Hann segir Neytendasamtökin ætla að halda málinu til streitu og vonast til þess að aðrir lánveitendur dragi ekki á langinn að endurreikna og bæta úr þessum ólögum sem hafa verið í gildi. Hér má sjá Kastljós þáttinn í heild sinni. Hæstiréttur úrskurðaði í vaxtamáli Neytendasamtakanna og VR gegn bönkunum í dag. Deilt var um hvort ákveðnir skilmálar á lánum með breytilegum vöxtum væru lögmætir. Formaður Neytendasamtakanna segir niðurstöðuna vera stórsigur fyrir neytendur.