Hamas-hreyfingin hefur afhent Rauða krossinum fjórar kistur með líkum ísraelskra gísla. Ísraelsher segist fá kisturnar afhentar í færslu á samfélagsmiðlinum X. Hann muni í kjölfarið færa þær ástvinum hinna látnu. Þá hefur hreyfingin skilað tólf af þeim 28 líkum sem henni ber samkvæmt ákvæðum friðarsamkomulagsins. Allir þeir gíslar sem enn voru á lífi eru komnir til ástvina sinna. Á sama tíma var um tvö þúsund Palestínumönnum, sem sátu í ísraelskum fangelsum, sleppt. Ísraelsstjórn setti í gær takmarkanir á afhendingu neyðaraðstoðar á Gaza vegna tregðu Hamas við að láta af hendi jarðneskar leifar gíslanna. Leiðtogar Hamas hafa sagt mörg líkanna grafin undir rústum á Gaza og að langan tíma taki að finna þau öll. Rauði krossinn segir verkið geta tekið margar vikur og að líklegt sé að einhver þeirra finnist aldrei.