Milljarða fjárfesting bílarisa í miðvesturríkjunum

Fjölþjóðlegi bílarisinn Stellantis boðar að allt að þrettán milljörðum dala verði varið til uppbyggingar á verksmiðjum í Bandaríkjunum á næstu fjórum árum. Forstjórinn Antonio Filosa segir aldrei hafa verið bætt jafn hressilega í fjárfestingar þar í sameiginlegri hundrað ára sögu félagsins. Þannig megi fjölga störfum í Bandaríkjunum talvert á sama tíma og Donald Trump forseti hefur lagt tolla á innflutta bíla og íhluti. Alls eru fjórtán vel þekkt vörumerki undir hatti Stellantis og fyrirtækið hyggst skapa yfir fimm þúsund störf til framleiðslu á jeppabifreiðum af gerðinni Jeep í Michigan og fleiri ríkjum í miðvesturhluta Bandaríkjanna. Þar á meðal ætlar Stellantis að nota 600 milljónir dala til að hefja framleiðslu að nýju árið 2027 í verksmiðju í borginni Belvidere í Illinois sem fyrirtækið lokaði fyrir tveimur árum. Sú ákvörðun hefur síðan valdið núningi milli Stellantis og stéttarfélagi bílasmiða, United Auto Workers. Auk þess stendur til að bæta við framleiðslulínu Stellantis í Ohio, Indiana og Michigan. Áætlanir sýna að nokkur hluti framleiðslunnar verða bílar bílar knúnir sprengihreyfli enda er framleiðendum heimilt að framleiða og selja farartæki í Bandaríkjunum sem menga meira samkvæmt ákvæðum umfangsmikils útgjalda- og skattalaga forsetans sem þingið samþykkti í júlí.