Hamas-hreyfingin hefur hert enn tökin í rústum borganna á Gaza og birti í gær myndskeið sem sýnir aftöku átta krjúpandi manna með bundið fyrir augun á götu úti. Talsmenn Hamas segja mennina hafa verið samverkamenn Ísraels, svikara og útlaga. Myndskeiðið virðist hafa verið tekið upp á mánudagskvöld og var birt samtímis og átök blossuðu upp milli nokkurra sveita Ezzedine al-Qassam, hernaðararms Hamas og annarra hópa Palestínumanna handan gulu línunnar svokölluðu. Hún afmarkar þann helming Gaza sem Ísraelsher hefur enn á valdi sínu. Hamas fullyrðir að nokkrir hópanna njóti stuðnings Ísraels. Á sama tíma og ísraelskir hermenn hopuðu út úr Gaza-borg tóku vopnaðir og grímuklæddir löggæslumenn á vegum Hamas sér þar stöðu. Allmargir hafa verið handteknir. Aðgerðir Hamas virðast njóta stuðnings og skapa öryggiskennd ef marka má svör nokkurra íbúa Gaza sem AFP-fréttaveitan tók tali, en fæstir gáfu upp fullt nafn að sögn vegna ótta við hefndaraðgerðir. AFP ræddi einnig við fulltrúa úr nýlega stofnaðri sveit á vegum Hamas, sem hann segir eiga að tryggja stöðugleika og öryggi íbúanna. Ísraelsstjórn segir útilokað að Hamas komi að framtíðarstjórn Gaza og krefst afvopnunar hreyfingarinnar. Það gerir Donald Trump Bandaríkjaforseti líka, hann kveðst veita þeim Hamas-liðum friðhelgi sem leggja niður vopn en þeir sem ekki hlýða verði neyddir til afvopnunar.